Fótbolti

„Hefur alltaf reynst okkur erfitt að ná í úr­slit í seinni leiknum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Åge Hareide í leik kvöldsins.
Åge Hareide í leik kvöldsins. Ahmad Mora/Getty Images

„Verð að sjá þetta aftur. Við töpum boltanum rétt fyrir utan teig og þetta var alveg skelfileg byrjun á leiknum,“ sagði landsliðsþjálfarinn Åge Hareide eftir 3-1 tap Íslands gegn Tyrklandi ytra í Þjóðadeild karla í knattspyrnu.

Ísland lenti undir eftir aðeins 78 sekúndur en Åge hrósaði leikmönnum fyrir að koma til baka og sýna karakter í fyrri hálfleik.

„Leikmenn börðust í fyrri hálfleik, börðust fyrir því að koma til baka. Jöfnum svo eftir með góðri hornspyrnu og góðri afgreiðslu.“

„Í hálfleik töluðum við um að reyna spila boltanum betur og ákváðum að gera þrjár skiptingar. Orri Steinn (Óskarsson) kom inn og um tíma í síðari hálfleik vorum við með þá á afturfótunum. Hefðum getað gert meira en kjánaleg mistök kostuðu okkur í dag,“ sagði Åge um síðari hálfleikinn.

„Náðum ekki upp þessum ryðma og þeim stöðum sem við vildum. Var einn af þessum dögum þar sem hlutirnir gengu einfaldlega ekki upp,“ bætti hann við en aftur hrósaði Åge liði sínu.

„Eftir að við lentum 2-1 undir þá eltum við jöfnunarmarkið, áttum fínan kafla um miðbik síðari hálfleiks en svo dró af okkur. Það var þreyta eftir leikinn á föstudag og það hefur alltaf reynst okkur erfitt að ná í úrslit í seinni leiknum í þessum gluggum, þurfum að vinna í því.“

„Við reyndum að jafna en vorum ekki nægilega góðir í að spila á milli línanna. Orri Steinn og Andri Lucas Guðjohnsen eru góðir í því svæði en fannst við þreyttir í lokin. Vona að menn verði beittari þegar við hittumst í október.“

„Við eigum eftir að fá Wales og Tyrkland til Reykjavíkur, þurfum að gera þeim erfitt fyrir þar,“ sagði landsliðsþjálfarinn að endingu áður en hann sagðist hafa viljað fjögur stig úr fyrstu tveimur leikjum Þjóðadeildarinnar.

Klippa: Svekktur landsliðsþjálfari



Fleiri fréttir

Sjá meira


×