Enski boltinn

Var með ferða­töskuna til­búna af því að Liver­pool ætlaði að kaupa hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
César Huerta hefur verið að gera góða hluti með liði Pumas í Mexíkó og Liverpool hafði áhuga á því að kaupa hann.
César Huerta hefur verið að gera góða hluti með liði Pumas í Mexíkó og Liverpool hafði áhuga á því að kaupa hann. Getty/Manuel Velasquez

Mexíkóski kantmaðurinn César „Chino“ Huerta var að eigin sögn mjög nálægt því að ganga til liðs við Liverpool í sumar.

Huerta segist jafnframt ekki vera búinn að gefa upp vonina um að komast einhvern tímann í ensku úrvalsdeildina en mögulega var þetta þó stóra tækifærið.

Liverpool var í viðræðum við mexíkóska liðið Puma á síðustu dögum félagsskiptagluggans en ekkert varð af kaupunum á endanum. Huerta er örvfættur en getur spilað í öllum stöðunum fremst á vellinum.

Mexíkóski landsliðsmaðurinn er líka bara 23 ára gamall. Hann ræddi áhuga Liverpool og sagðist hafa verið að undirbúa ferðalag til Liverpool á síðasta degi gluggans.

„Það kom upp eitthvað vandamál. Ég var búinn að pakka í ferðatöskuna en þetta gekk ekki eftir. Ég veit vel að þetta er lest sem kemur aðeins einu sinni við hjá þér,“ sagði Huerta við ESPN.

Það leit út fyrir að Liverpool ætlaði að kaupa hann af Pumas en að hann myndi síðan fara á láni til annars liðs í Evrópu á þessari leiktíð. Lið Arne Slot var búið að fylla kvóta sinn af leikmönnum utan Evrópu.

„Þetta hafði ekkert með leikmanninn eða félagið okkar að gera. Leikmaðurinn vildi fara. Liverpool sér hæfileikana hjá Huerta en aðstæður innanhúss hjá þeim sá til þess að ekkert varð að þessu,“ sagði Luis Gonzalez, forseti Pumas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×