Könnunum hefur nú fjölgað í kjölfar kappræðanna og benda þær til þess að Harris hafi aukið fylgi sitt á landsvísu. Í meðaltali tölfræðimiðilsins FiveThirtyEight, mælist Harris nú með 48,3 prósenta fylgi en Trump með 45,3 prósent.
Á daginn sem kappræðurnar fóru fram í síðustu viku var forskot Harris 2,5 prósentustig. Nú mælist það 2,9 prósentustig.
Þá sýnir spálíkan miðilsins að sigurlíkur Harris séu komnar í 61 prósent.
Fyrsta könnunin sem framkvæmd var eftir kappræðurnar sýndi litlar sem engar breytingar á fylgi Harris og Trumps.
Sjá einnig: Litlar breytingar á fylgi eftir kappræðurnar
Samkvæmt frétt ABC News hefur Harris bætt lítillega við fylgi sitt í næstum öllum nýjustu könnunum. Í flestum þeirra hefur hún bætt við sig einu eða tveimur prósentustigum. Í einni hefur hún lækkað um eitt prósentustig og tvær til viðbótar sýna engar marktækar breytingar.
Hvert prósentustig skiptir máli
Fylgi á landsvísu er ekki besti mælikvarðinn á það hvernig forsetakosningar í Bandaríkjunum geta farið, vegna svokallaðs kjörmannakerfis og vegna þess hvernig fylgið deilist milli frambjóðenda eru sjö ríki sem virðast skipta mestu máli þessar kosningarnar.
Það eru Arizona, Georgía, Michigan, Nevada, Norður Karólína, Pennsylvanía og Wisconsin.
Samkvæmt frétt Washington Post sýna kannanir að Harris leiðir í þremur af þessum ríkjum. Í Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin. Trump leiðir í Georgíu og Arizona en þau eru með jafnt fylgi í bæði Nevada og Norður-Karólínu.
Munurinn í öllum ríkjunum er innan skekkjumarka.
Enn eru tæpar sjö vikur til kosninga í Bandaríkjunum svo margt getur gerst. Flestir hafa þegar tekið ákvörðun um hvern þeir ætla að kjósa svo hvert prósentustig til eða frá getur skipt máli þegar á hólminn er komið.
Pennsylvanía mun skipta lykilmál fyrir þann sem verður næsti forseti Bandaríkjanna. AP fréttaveitan hefur eftir sérfræðingum að bæði Trump og Harris verji meiri fjármunum í auglýsingar þar en í hinum sex ríkjunum til samans.