Erlent

Milton safnar aftur krafti

Samúel Karl Ólason skrifar
Talið er að Milton geti valdið mikilli eyðileggingu í Flórída.
Talið er að Milton geti valdið mikilli eyðileggingu í Flórída. AP/NOAA

Fellibylurinn Milton er aftur orðinn að fimmta stigs fellibyl, eftir að hann var lækkaður í fjórða flokk í dag. Búist er við því að fellibylurinn muni valda mikilli eyðileggingu á vesturströnd Flórída seinna í vikunni, gangi spár eftir.

Áfram er búist við því að styrkur Miltons muni sveiflast til og frá áður en hann nær landi í Flórída á miðvikudagskvöld eða fimmtudagsmorgun. Þrátt fyrir að hann muni missa kraft er reiknað með því að sjávarstaða muni hækka gífurlega mikið og sjór muni ná langt inn á land. Þá mun Milton valda mikilli rigningu með meðfylgjandi hættu á skyndiflóðum og flóðum í byggðum.

Skilgreiningin á hvaða stigs fellibyljir eru veltur á vindhraða. Til að verða fimmta stigs þarf vindhraði fellibyls að vera að minnsta kosti sjötíu metrar á sekúndu.

Sjá einnig: Koma sér í skjól undan fellibylnum Milton

Embættismenn hafa varað fólk við því að treysta á að Milton muni missa mikinn kraft og hvatt fólk til að hlýða skipunum um brottflutning.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, hvatti fólk í dag til að flýja.

„Þetta óveður mun fara yfir Flórída-skagann og fara út á Atlantshafið, líklega enn sem fellibylur,“ sagði DeStantis. „Svo hann mun hafa mikil áhrif um allt ríkið.“

Hann sagði að fólk þyrfti að hafa hraðar hendur ef það ætlaði sér að flýja undan Milton.

Hér að neðan má sjá myndband sem tekið var upp í dag þegar flugvél var flogið inn í Milton svo hægt væri að afla gagna um fellibylinn.

Fellibylurinn Helena er nýbúinn að leika Flórída og önnur ríki á svæðinu grátt. Fregnir hafa borist af því að eldsneyti sé búið í Flórída og að langar raðir hafi myndast við þær bensínstöðvar sem enn eru opnar.

Þá segir Washington Post frá því að einhverjir íbúar hafi ákveðið að taka slaginn og ætli að halda kyrru fyrir í Tampa Bay, þar sem talið er að Milton geti valdið miklum skaða.

Ein kona sem rætt var við sagði að hún og eiginmaður hennar hefðu ekki flúið þegar Helena fór yfir svæðið og ætli að gera að sama aftur. Þau búi á fjórðu hæð og séu nokkuð örugg þar. Einnig var rætt við tvo háskólanemendur sem ætluðu að koma sér fyrir á hóteli sem hannað er til að þola fellibylji.

Þeir segja bæinn undarlega tóman og óvissuna erfiða.


Tengdar fréttir

Úr óveðri í kröftugasta fellibyl ársins á sólarhring

Fellibylurinn Milton hefur stækkað mjög hratt yfir Karíbahafinu og er nú skilgreindur sem fimmta flokks fellibylur og sá kröftugasti á þessu ári. Hann stefnir hraðbyr að Flórída en Helena, annar öflugur fellibylur fór þar einnig yfir á dögunum og olli miklum skaða.

„Fordæmalausar“ hörmungar eftir Helenu

Neyðarástand ríkir víða í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum eftir að fellibylurinn Helena olli þar „fordæmalausum“ hörmungum. Úrhellið sem fylgdi Helenu olli þar stórum skyndiflóðum og aurskriðum og eru minnst 37 dánir en búist er við að talan muni hækka enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×