Gengi íslenska liðsins í undankeppni EM hefur verið upp og niður, en 4-2 sigurinn frækni gegn Dönum í Víkinni í síðasta mánuði gerir að verkum að liðið á enn möguleika á að komast á EM.
Ísland á aðeins leikina við Litháen og Danmörku eftir. Danmörk á bara eftir leikinn við Ísland, og Wales á bara eftir heimaleik sinn við Tékkland á morgun.
Ísland er í 3. sæti síns riðils með 9 stig en Danmörk og Wales efst með 14 hvort. Ísland þarf því að vinna báða leiki sína til að falla ekki úr keppni.
Efsta liðið er öruggt um að komast beint á EM en liðið sem endar í 2. sæti kemst annað hvort beint á EM (þrjú lið sem enda með bestan árangur í 2. sæti í riðlunum níu) eða fer í umspil (hin sex liðin sem enda í 2. sæti í sínum riðli).
Til að Ísland næði að vinna riðilinn þyrfti liðið því að vinna báða sína leiki og treysta á að Wales næði ekki að vinna Tékkland, sem er með átta stig í riðlinum.
Litáen er neðst í riðlinum, án stiga, en Ísland þurfti hins vegar að hafa mjög mikið fyrir 1-0 sigri þegar liðin mættust í Litáen. Davíð Snær Jóhannsson skoraði þar sigurmarkið. Litáen hefur einnig tapað með eins marks mun í báðum leikjum sínum við Wales og öðrum leikjanna við bæði Danmörku og Tékkland.
Leikur Íslands og Litáens hefst klukkan 15, á Stöð 2 Sport, og er í opinni dagskrá.