Ísland og Tyrkland eigast við í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvelli á morgun. Eftir að niðurstaða komst í mál Alberts Guðmundssonar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag voru margir sem veltu því fyrir sér hvort Albert yrði kallaður inn í landsliðshópinn.
Á blaðamannafundi eftir jafnteflið gegn Wales á föstudag var landsliðsþjálfarinn Åge Hareide spurður út í það hvort Albert yrði með gegn Tyrkjum og svaraði að svo yrði ekki, hann þyrfti hvíld og myndi fá hana.
Á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag var Hareide aftur spurður út mál Alberts og sagði þá að KSÍ hefði viljað fá Albert inn í hópinn en hefði leyft Alberti að ráða hvað hann myndi gera.
„Við töluðum við Albert, KSÍ ræddi við Albert. Ég held hann þurfi hvíld, aðallega andlega, eftir það sem hefur verið í gangi. Þetta er stuttur tími og stuttur fyrirvari að ferðast frá Ítalíu. Hann hefði örugglega ekki komið fyrr en í dag,“ sagði Hareide á fundinum í dag.“
„Það hefði verið erfitt fyrir hann, það var við of miklu að búast að bíða fram á síðustu stundu. Þetta var hans ákvörðun og við leyfðum honum að ráða. Við vildum að sjálfsögðu fá hann en skiljum að hann þarf tíma.“