Frá þessu greinir Óli Björn í grein á vef Sjálfstæðisflokksins, undir yfirskriftinni „Takk fyrir allt“.
Þar segir hann sérstaklega ánægjulegt að hafa notið þess trausts og trúnaðar að vera þingmaður Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum, og fyrir það sé hann þakklátur.
Óli Björn var fyrst kjörinn á þing árið 2016 og var í fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í síðustu þingkosningum, árið 2021.
Stundum reynt á þolrifin
„Í starfi mínu sem þingmaður hef ég byggt á hugmyndafræði og lífssýn sjálfstæðisstefnunnar um mannhelgi einstaklingsins – að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins. Og það hefur á stundum reynt á þolrifin.
Fram undan eru mikilvægar kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt á brattann að sækja en hefur náð vopnum sínum aftur. Gangi frambjóðendur og við sem styðjum Sjálfstæðisflokkinn til verka af sannfæringu og með sjálfstraust óttast ég ekki dóm kjósenda,“ skrifar hann.
„Takk fyrir mig“
Hann muni gera sitt til þess að tryggja góðan árangur, og segir frambjóðendur flokksins þurfa fylgja hugmyndum eftir af ástríðu og sannfæringu.
„Sýna staðfestu í baráttunni fyrir frelsi einstaklingsins og fullveldi landsins. Þeirri baráttu legg ég lið í öflugri bakvarðarsveit Sjálfstæðismanna um allt land. Takk fyrir mig.“