Fótbolti

„Ó­skiljan­legt að setja Er­lend í þetta verk­efni"

Hjörvar Ólafsson skrifar
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var skiljanlega sár og svekkur að leik loknum.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var skiljanlega sár og svekkur að leik loknum. Vísir/Vilhelm

Jón Þór Hauksson, þjálfari Skagamanna, var einkar ósáttur við störf dómara leiks ÍA og Víkings í Bestu deild karla í fótbolta í dag. Jón Þór tíndi til tvö atriði sem hann var sérstaklega óánægður með. Þá var Jón Þór hundfúll með að Erlendur Eiríksson væri settur í það verkefni að vera fjórði dómari þessa leiks. 

„Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja þegar ég ræði frammistöðu dómara þessa leiks. Fyrir það fyrsta rænir Elías okkur vítaspyrnu þegar Hinrik er felldur í fyrri hálfleiknum. Svo veit ég ekki hvað í ósköpunum þeir dæma á þegar við skorum í uppbótartíma. Það var óskiljanlegt og svo er brotið á Johannesi Vall í aðdraganda þess að þeir skora sigurmarkið," sagði Jón Þór sem var heitt í hamsi. 

„Þetta var geggjaður fótboltaleikur og mínir menn stóðu sig framúrskarandi vel. Því miður er ekki hægt að segja það sama um dómarana sem voru sendir í þetta verkefni. Það er auðvitað gríðarlegt dómgreindarleysi af hálfu KSÍ að senda Erlend í það verk að vera fjórði dómari í þessum leik í ljósi þess að hann gerði afdrifarík mistök í fyrri leik liðanna á Skaganum í sumar. 

Þá er ég ekki að segja að Erlendur hafi haft úrslitaáhrif í þessum leik, það var Elías, en það var erfitt og afar óheppilegt að það væri Erlendur sem væri að reyna að útskýra þessar fáránlegar ákvarðanir. Við ætluðum að teikna upp úrslitaleik við Val um Evrópusæti í lokaumferðinni en því var einfadlega hrifsað úr höndum okkar af utanaðkomandi aðilum. Það er ólýsanlega svekkjandi,“ sagði Skagamaðurinn sótillur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×