Innlent

Hátt á annað hundrað milljónir vegna ó­væntra for­seta­skipta

Kjartan Kjartansson skrifar
Halla og eiginmaður hennar Björn Skúlason á svölum Alþingis eftir að hún tók formlega við embætti forseta Íslands 1. ágúst. Ekki var gert ráð fyrir kostnaði við forsetaskipti í fjárlögum þessa árs.
Halla og eiginmaður hennar Björn Skúlason á svölum Alþingis eftir að hún tók formlega við embætti forseta Íslands 1. ágúst. Ekki var gert ráð fyrir kostnaði við forsetaskipti í fjárlögum þessa árs. Vísir/RAX

Auknar fjárheimildir upp á tæpar 150 milljónir króna vegna ófyrirséðra forsetaskipta eru lagðar til í fjáraukalögum starfandi fjármálaráðherra. Þar af er kostnaður við öryggismál og endurbætur á íbúðarhúsnæði á Bessastöðum um 86 milljónir króna.

Ekki var gert ráð fyrir kostnaði við forsetaskipti í fjárlögum 2024 sem voru samþykkt síðasta vetur. Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi forseti, greindi frá því í nývarpsávarpi að hann hygðist ekki gefa kost á sér í forsetakosningum sem fóru fram 1. júní.

Í fjáraukalögunum sem nú bíða samþykkis Alþingis er því kveðið á um auknar fjárheimildir til embættis forseta Íslands og forsætisráðuneytisins vegna forsetaskiptanna sem nemur 149,6 milljónum króna.

Stærsti hluti upphæðarinnar, 86 milljónir króna, eru til þess að mæta kostnaði vegna öryggismála ásamt því sem er lýst sem nauðsynlegum endurbótum á íbúðarhúsnæði forseta og fjölskylda hans á Bessastöðum sem brýnt hafi verið að ráðast í vegna forsetaskiptanna.

Tuttugu og fimm milljónir til viðbótar eru sagðar vegna kostnaðar við innsetningu Höllu Tómasdóttur sem forseta ásamt kostnaði Alþingis vegna undirbúnings innsetningarinnar sem fór fram 1. ágúst. Einnig á að mæta kostnaði forsetaembættisins í tengslum við og í framhaldi af embættistöku Höllu upp á 13,6 milljónir króna.

Þá er óskað eftir heimild fyrir 25 milljónum krónum í biðlaun sem Guðni á rétt á í sex mánuði frá því að hann lét af embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×