Liverpool hefur unnið ellefu af tólf fyrstu leikjum sínum í deild og Meistaradeild síðan að Slot settist í stjórastólinn.
Það er þó sérstaklega gengið á útivöllum sem hefur vakið athygli. Liverpool var oft að gera frábæra hluti á Anfield í stjóratíð Klopp en það gekk oft mun verr á útivöllum.
Slot hefur hins vegar stýrt Liverpool liðinu til sigurs í sex fyrstu útileikjum tímabilsins í deild og Meistaradeild. Hann varð fyrsti knattspyrnustjórinn í 132 ára sögu félagsins sem nær því.
„Met eru fín en það er annað sem er betra en að setja met og við vitum öll hvað það er. Ég meina, það er að vinna titla,“ sagði Arne Slot eftir leikinn.
Darwin Núñez skoraði eina mark leiksins en markvörðurinn Caoimhín Kelleher þurfti aðeins að taka á stóra sínum til að sjá til þess að það mark myndi duga.
„Ef við hefðum farið héðan með jafntefli þá hefði mér fundist að við hefðum tapað einhverju. Við vorum með yfirburði í sjötíu mínútur svona fyrir utan fyrstu tíu mínúturnar,“ sagði Slot.
Hann tók Mohamed Salah af velli þegar hálftími var eftir. Það kom ekki í bakið á honum.
„Við erum að glíma við meiðsli og ég þarf að passa upp á leikmennina sem hafa spilað mikið. Mo er einn af þeim og það er stórleikur sem bíður okkar á sunnudaginn,“ sagði Slot. Liverpool mætir þá Arsenal í toppslag í ensku úrvalsdeildinni.
„Við þurfum fullt af leikmönnum til að komast í gegnum erfiðar vikur framundan og þessa krefjandi mánuði sem bíða okkar. Það eru allir í hópnum tilbúnir að spila,“ sagði Slot.