Körfubolti

„Sá bara metnaðarlausa menn sem voru allir með hendur niðri“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hilmar Pétursson hefur ekki staðið undir væntingum hjá Keflavík.
Hilmar Pétursson hefur ekki staðið undir væntingum hjá Keflavík. vísir/anton

Varnarleikur Keflavíkur, eða skortur á honum, var til umræðu í Bónus Körfuboltakvöldi í gær. Sævari Sævarssyni finnst vanta vilja í leikmenn Keflavíkur.

Á fimmtudaginn tapaði Keflavík fyrir Íslandsmeisturum Vals, 104-80. Keflvíkingar, sem var spáð góðu gengi fyrir tímabilið, hafa tapað þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum í vetur.

„Það getur vel verið að Keflavík ætli að sanna að það sé hægt vinna titla með því að spila hraðan, skemmtilegan bolta og taka fullt af skotum. En það er ekki þar með sagt að þú þurfir að henda frá þér viljanum til að stoppa andstæðinginn, viljanum til að láta finna fyrir þér og sýna fólkinu sem mætti í íþróttahúsið og styrktaraðilunum sem setja allan peninginn í þetta að þú viljir að andstæðingurinn skori minna en þú,“ sagði Sævar í þættinum í gær.

Hann var ekki hrifinn af því sem hann sá til Keflavíkurliðsins á fimmtudaginn og sagði að nýju leikmenn þess hefðu ekki fundið taktinn enn sem komið er.

„Ég sá bara einstaklinga sem ætluðu að reyna að skora meira en andstæðingurinn en ekkert að leggja kapp á að stoppa eða láta finna fyrir sér; bara metnaðarlausa menn sem voru allir með hendur niðri. Ég veit ekki hvort sé að bíða eftir einhverri sprengju,“ sagði Sævar. 

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld - Umræða um Keflavík

„Það eru komnir þrír nýir leikmenn í liðið og þeir hafa allir valdið vonbrigðum. Það voru miklar væntingar gerðar til Hilmars Péturssonar. Hann er ekki búinn að sýna neitt. Það voru miklar væntingar gerðar til þessa Þjóðverja [Jarell Reischel]. Það er ekki hægt að kenna honum um gengi liðsins. Það er eðlilegt að það taki tíma fyrir hann að komast inn. Síðan tekurðu ungan bandarískan leikmann [Wendell Green] sem á að njóta þess að spila í deild með fullt af reynslumiklum mönnum, Halldóri Garðari [Hermannssyni], Igor Maric, Jaka Brodnik, en þeir eru ekki að sýna þessum Bandaríkjamanni neitt varðandi það að fara fram með góðu fordæmi.“

Innslagið úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan,


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×