Fótbolti

Kane steig á and­lit en slapp við rautt: „Augljóst að dómarinn var í Bayern treyju“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Harry Kane náði ekki til boltans á undan markmanninum og steig á hann.
Harry Kane náði ekki til boltans á undan markmanninum og steig á hann. Torsten Silz/picture alliance via Getty Images

Bayern Munchen vann öruggan 4-0 sigur á Mainz í þýsku bikarkeppninni í gærkvöldi. Jamal Musiala skoraði þrennu, en var rangstæður í öðru markinu, Harry Kane bætti svo fjórða markinu við en hefði ekki átt að vera inni á vellinum, að mati leikmanna Mainz.

Harry Kane sparkaði í andlitið á markmanni Mainz, Robin Zentner. Hann fékk skurð fyrir ofan augabrúnina og glóðarauga, en gat haldið áfram eftir aðhlynningu. Á blaðamannafundi eftir leik sagði markmaðurinn ekki um slys að ræða.

„Ég kenni honum um. Það sést nokkuð snemma að hann á ekki séns í boltann, hann hefði alveg getað sleppt þessu.“

Binda þurfti um sár Zentner.Ralf Ibing - firo sportphoto/Getty Images

Um annað mark Musiala sagði Zentner það ekki skipta máli að VAR hafi ekki verið notað í leiknum.

„Við erum með línuvörð, hann á að sjá þetta. Þetta er ekki einu sinni tæpt, mjög augljóst og auðveld rangstaða að dæma. Við vorum ekki heppnir með ákvarðanir dómara, það var Bayern.“

Zentner gat haldið áfram eftir aðhlynningu.S. Mellar/FC Bayern via Getty Images

Liðsfélagi hans, Dominik Kohr, tók undir í bræði.

„Annað markið var rangstaða og það var brotið á mér í fjórða markinu. Augljóst að dómarinn var í Bayern treyju,“ sagði hann og gæti átt von á sekt, fyrir að gefa í skyn að dómarinn hafi viljandi haft áhrif á úrslit leiksins.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×