Innlent

Keppast við að tjá sig um skrif Þórðar: Krist­rún taki stóra á­hættu með að halda honum á lista

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Þórður Snær Júlíusson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir tuttugu ára gömul skrif sín síðustu daga.
Þórður Snær Júlíusson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir tuttugu ára gömul skrif sín síðustu daga. Vísir/Grafík

Fjölmargir hafa tekið til máls í dag á samfélagsmiðlum til að fordæma umdeild skrif Þórðar Snæs Júlíussonar, frambjóðanda Samfylkingarinnar, eða taka upp hanskann fyrir hann. Heimspekingur segir ekki óeðlilegt að ræða þessi skrif og tekur fram að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, taki áhættu með Þórð á lista.

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um skrifin eru fyrrverandi forseti ASÍ og talskona Stígamóta, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, fyrrverandi aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur og fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna.

Mikið havarí hefur gengið yfir síðan að gömul bloggskrif Þórðar Snæs voru rifjuð upp í viðtali í Spursmálum á dögunum. Til að mynda var rifjað upp að á árunum 2006 og 2007 hafi hann haldið úti bloggsíðu sem bar heitið thessarelskur.blogspot.com. Skrifin lýsa bagalegum og óviðurkvæmilegum viðhorfum í garð kvenna. Skrifin þykja mjög niðrandi.

Þórður Snær baðst tafarlaust afsökunar á 20 ára gömlum skrifum sínum í ljósi umræðunnar sem myndaðist um þau en ljóst er að ekki allir eru reiðubúnir að taka hann í sátt.

Biðst ekki afsökunar illa

Henry Alexander Henryson heimspekingur ræddi málið í Reykjavík síðdegis í dag og sagði stöðu Þórðar snúna og sagði Kristrúnu taka stóra áhættu með því að halda honum í framboði fyrir flokkinn. 

„Hann biðst ekki afsökunar illa, hann er til dæmis ekki að gera eins og maður hefur séð stjórnmálamenn gera, kvarta yfir því að það hafi verið gildra lögð fyrir þá eða segja að þetta sé einhverjum öðrum að kenna. Sumir hafa kvartað yfir því að hann sé oft að vísa til þess að hann hafi verið ungur því hann var auðvitað ekki svo ungur.“

Afsökunarbeiðnin hafi verið bæði til samfélagsins almennt og félaga hans í flokknum. Nú standi Samfylkingin frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvort það eigi að taka afsökunarbeiðninni og halda áfram eða fara í róttækari aðgerðir.

Erfitt fyrir hann að halda sér í baráttunni

„Þetta finnst mér svolítið óheppilegt að við getum ekki haldið áfram að ræða þetta, það þarf að ræða þetta. Hann þyrfti jafnvel að biðja fólk fyrirgefningar, því það eru þarna nafngreindir einstaklingar í þessum færslum.“

Með tilliti til tímarammans fram að kosningum sé erfitt fyrir Þórð að halda sér í kosningabaráttunni að mati Henry. Enginn sé að gefa í skyn að þetta sé viðhorf hans í dag en þó sé mikilvægt að gera þetta upp og ræða þetta.

„Það koma upp gömul mál en samt hafa ráðherrar sagt af sér, því trúverðugleikinn skaðast svo mikið við þetta. Þetta er eðli þess að vera í stjórnmálum og vera í trúnaðarsambandi við almenning,“ segir hann og tekur fram að hann telur Samfylkinguna ekki spila þetta rétt með því að halda honum ofarlega á lista. 

Að skrifa niðrandi um konur næri faraldurinn

Drífa Snædal, talsmaður Stígamóta og fyrrverandi forseti Alþýðusambandsins, tjáði sig um málið á Facebook undir titlinum: Karlar sem ógna öryggi kvenna. Í færslunni minnti hún á að flestar konur verði fyrir ofbeldi eða áreitni af hendi karla á lífsleiðinni. Það að ofbeldi karla líðist liti samskipti kynjanna og búi til óöryggi. Kynbundið ofbeldi sé faraldur hér á landi. 

„Að tala eða skrifa niðrandi um konur nærir faraldurinn. Að taka því ekki alvarlega þegar konur verða fyrir ofbeldi nærir faraldurinn. Gefur þau skilaboð að það sé í lagi að konur og kvár séu undirskipaðar körlum og karlar geta hagað sér nákvæmlega eins og þeim sýnist án afleiðinga. Þegar karlar með völd tala niðurlægjandi um konur þá afmennskar það konur og gefur þau skilaboð að það sé í lagi að vanvirða þær.“

Facebook-færsla Drífu í heild sinni.Skjáskot

Hún segir það hafa ógnað öryggi kvenna þegar að karla jusu úr skálum kvenfyrirlitningar sinnar á netinu.

„Ég man vel eftir þeim tíma enda sá ég tilefni til að kæra nauðgungarhótun í einni slíkri bloggfærslu. Þetta var í alvöru veruleikinn og þegar karlar sem fóru með einhverskonar völd leyfðu sér svona skrif þá leysti það úr læðingi kvenhatur og kvenhatur ógnar öryggi kvenna. Það gerði það þá og það gerir það núna líka.“

Fæstir karlar geri sér grein fyrir veruleika kvenna og kvára. Drífa leggur til að í stað þess að karlar bíði af sér storminn eða komi með hálfar afsakanir, þá eigi þeir að hlusta á veruleika þeirra sem verða fyrir kynbundnu ofbeldi.

Áfall fyrir konur að hellt hafi verið olíu yfir karlrembubál

Lára Björg Björnsdóttir, fyrrverandi fjölmiðlakona og fyrrverandi aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur, segist muna vel eftir karlrembu anda sem einkenndi vinnustað fjölmiðla þegar hún hóf feril sinn árið 2006.

„Ég man eftir að hafa verið aðallega beðin um að skrifa fréttir um leikskólamál og líka ef fínt skemmtiferðaskip var kannski á leið í höfn. Ég man eftir að hafa setið ritstjórnarfundi þar sem gert var lítið úr konum í íslenskum stjórnmálum og þá aðallega hæðst að útliti þeirra eins og klæðaburði og þyngd. Ég man eftir hvernig strákarnir héldu alltaf hópinn, stóðu saman og hrósuðu hver öðrum.“

Færsla Láru í heild sinni.Skjáskot

Lára veltir þessum tímum fyrir sér núna og vísar til bakslags í jafnréttismálum sem hafi sést víða um heim síðustu ár.

„En málið fokking er að þetta þurfti ekkert endilega að vera svona. Og það að einhver og einhverjir hafi hellt olíu á þetta karlrembubál með rætnum skrifum árum saman vil ég meina sé ákveðið áfall fyrir konur eins og mig. Þetta tímabil hafði afleiðingar og hefur enn afleiðingar fyrir kvenréttindi, fyrir öryggi kvenna almennt. Þetta tímabil var nefnilega ekki bara það og svo er það liðið.“

Tekur upp hanskann fyrir Þórð

Guðmundur Andri Thorsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, tekur upp hanskann fyrir Þórð á Facebook-síðu sinni og segir að um hafi verið að ræða ungan mann sem lék sér að hættulegum hugmyndum.

„Ungur maður að prófa að vera viti sínu fjær, máta sig við mannfyrirlitningu og kvenhatur; prófa að hugsa eins og Strindberg,skrifa eins og Guðbergur eða Megas og slíkir karlhöfundar, og tekst ekki vel upp; kann ekki að vera kaldhæðinn og háðskur, er stirður og klunnalegur, ófyndinn, já vitlaus.“

Hann tekur fram að árin hafi liðið frá skrifunum og að Þórður hafi þróast og þroskast í farsælli áttir. Hann furðar sig á því að fólk vilja dæma hann eftir þessum gömlu skrifum.

„Ég hef aldrei verið hrifinn af kröfunni um algjört vammleysi og flekklausan feril þegar kemur að því að meta mannkosti fólks. Við erum öll samsafn eiginleika, hugsana, hvata og orða sem renna í alls konar graut eftir alls konar farvegum innra með okkur.“

Hann heldur áfram:

„Ég hef fylgst með Þórði Snæ nokkuð lengi og veitt því athygli hversu skýr hann er og hversu auðvelt hann á með að vinna úr töluverðu magni upplýsinga, greiða úr flækjum og sjá í gegnum moldviðri og miðla mikilvægum upplýsingum á ljósan og greinagóðan hátt til okkar.“

Segir Guðmund ekki vera dómbæran á skrifin

Brynhildur Björnsdóttir, fyrrverandi þingmaður VG og frambjóðandi flokksins, brást illa við skrifum Guðmundar og birti sína eigin færslu.

„Kæri Guðmundur Andri, þú mátt alveg hafa þína skoðun en ég efast um að þessi ummæli komi jafn illa við þig og td mig eða Kristrúnu Frostadóttur eða aðrar konur sem hafa umgengist Þórð Snæ gegnum tíðina.“

Brynhildur tók fram að Guðmundur væri ekki dómbær um hvaða áhrif skrif Þórðar hafa á konur. 

„Konur eru í fullum rétti að finnast þessi orðræða ógeðfelld og óþægileg og mega líka alveg tala um það. Líka þó hann sé mögulega að þykjast vera persóna í bók.

Við höfum áhyggjur af kvenfyrirlitningu dagsins og hún er ekki sprottin úr lausu lofti . Viðhorfin sem birtast í þessum skrifum eru hluti af lengri sögu, þau eru vissulega skrifuð inn í tíðaranda og viðhéldu honum, smituðu út frá sér og studdu við sambærilega orðræðu á sínum tíma, réttu næstu kynslóð hressustrákakalla leyfisbréfið um að svona tal væri töff og í lagi og þannig koll af kolli fram á daginn í dag,“ segir í færslu Brynhildar sem segir Þórð þurfa að sýna með verkum sínum að hann sé ekki sá maður sem birtist í þessum gömlu skrifum.

„Siðapostull hægrisins búinn að festa hausinn í gamla óhreinatauinu“

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsinga- og samskiptafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, furðar sig á umræðunni um málið og telur fyrirsögn Morgunblaðsins um að skrif Þórðar beinist að börnum ekki eiga rétt á sér.

„Nú er siðapostuli hægrisins búinn að festa hausinn í gamla óhreinatauinu hans Þórðar Snæs og obbinn af „woke“ vinstrinu fussar og sveiar undir prédikuninni. Hvernig fyrirsögnin með þessari frétt getur átt rétt á sér, er rannsóknarefni, ekki fyrir fornleifafræðinga, sem eru að vinna með óhreinan þvott, heldur sálfræðinga.“

Færsla Þóru í heild sinni.Skjáskot

Að hennar mati stefni allt í harða „trumpíska, hægristjórn“ með hagsmuni útgerðarinnar að leiðarljósi. 

„Klausturkarlarnir eru allir komnir með annan fótinn inná þing enda sér fólk engan mun á því sem sagt og gert er í dag af valdafólki í samfélaginu og bólugröfnum skólastrák sem rantaði á blogginu á næturnar fyrir 20 árum. Sumt fólk sér líka engan mun á spillingu og þátttöku í félagasamtökum sem eru Sjálfstæðisflokknum ekki þóknanlegar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×