Ronaldo skoraði tvö mörk í leiknum, þar af fimmta mark Portúgals með bakfallsspyrnu sem valið var mark umferðarinnar.
Eftir þessa útreið Pólverja þá reitti hegðun Zielinski og Zalewski eftir leik ýmsa til reiði. Þar á meðal fyrrverandi landsliðsmanninn Jacek Bak sem kvaðst ekki geta skilið að þeir vildu mynd með manni sem fór svona illa með pólska liðið.
„Þetta er ekki mér að skapi. Tímarnir hafa breyst. Við töpum 5-1 og þá þarf að biðja um mynd með Ronaldo? Manninum sem niðurlægði okkur fyrir augnabliki síðan? Erum við bara ekki með neitt stolt? Í dag virðast samfélagsmiðlar mikilvægastir og sá sem nær fyrstur af sér mynd með Ronaldo vinnur. Svona á þetta ekki að vera,“ sagði Bak.
Bak vill sjá Michal Probierz, þjálfara Póllands, refsa leikmönnunum.
„Segjum hlutina eins og þeir eru: Probierz þjálfari þarf að bregðast við. Það eina sem vantaði var að hann tæki líka mynd af sér með Ronaldo, eða skiptist á jökkum við Roberto Martinez [þjálfar Portúgals]“ sagði Bak og taldi hegðun Zielinski og Zalewski einfaldlega sorglega.
Zielinski, sem er fyrirliði Póllands í fjarveru Roberts Lewandowski, var spurður út í þessa gagnrýni á blaðamannafundi og sagðist ekki sjá eftir neinu.
„Nicola og ég fórum til hans, báðum um mynd og tókum hana. Hvorki Cristiano né við áttum eitthvað erfitt með það,“ sagði Zielinski.
„Mér er sama um það sem er á samfélagsmiðlum. Fyrir mér er Cristiano Ronaldo einn besti leikmaður fótboltasögunnar. Mig langaði að taka mynd og ég gerði það. Ekkert flóknara. Af hverju er það ekki í lagi?
Við töpuðum leiknum en hvað átti ég að gera? Fela mig úti í horni? Ég fór til hans og bað um mynd, svo einfalt er það. Mig langaði bara til þess. Hann [Bak] hefur rétt á sinni skoðun en mér fannst ekkert að þessu,“ sagði Zielinski.