Innlent

Á­kvörðunar Höllu lík­lega að vænta í dag

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Forseti hitti formenn flokkanna á Bessastöðum í gær. Fyrst var Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Forseti hitti formenn flokkanna á Bessastöðum í gær. Fyrst var Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Ætla má að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sem fundaði í gær með formönnum allra þeirra flokka sem náðu inn á þing, muni tilkynna í dag hver þeirra fær stjórnarmyndunarumboðið.

Allar líkur eru taldar á því að Kristrún Frostadóttir fái umboðið í krafti stærðar þingflokks Samfylkingarinnar. Þá sögðu bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í gær að eðlilegast væri að Kristrún fengi umboðið fyrst.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins sagðist treysta Kristrúnu fyrir umboðinu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var sama sinnis og Bjarni og Þorgerður.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, gekk síðastur af fundi með forseta og sagði að honum loknum ákallið skýrt frá kjósendum um ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. 

Framsóknarflokkurinn ætli hinsvegar að vera í stjórnarandstöðu í þetta skiptið. 

Enn er óljóst hvort fallist hafi verið á beiðni um endurtalningu í Suðvesturkjördæmi eftir kosningarnar en þar mun hafa verið mjótt á munum og úrslitin þar gætu enn einu sett hringekju jöfnunarmanna af stað, með ófyrirjáanlegum afleiðingum. 

Gestur Svavarsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi, sagðist í samtali við fréttastofu í gær hafa beðið sitt talningafólk um að vera á tánum, ef til endurtalningar kæmi en Morgunblaðið segir ákvörðun um endurtalningu ekki hafa legið fyrir þegar blaðið fór í prentun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×