Sport

Gullverðlaunahafi á ÓL ætlar í NFL deildina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Roje Stona með gullverðlaunin sín í París. Hann fékk gull og setti Ólympíumet.
Roje Stona með gullverðlaunin sín í París. Hann fékk gull og setti Ólympíumet. vísir/getty

Það eru ekki nema rétt rúmir fjórir mánuðir síðan Roje Stona frá Jamaíka tryggði sér gullverðlaun í kringlukasti á Ólympíuleikunum í París og hann er þegar kominn með nýtt markmið.

Hann ætlar sér nefnilega að komast næst að í NFL-deildinni. Þessi 25 ára íþróttamaður er einn af fjórtán sem kemst á alþjóðlegt námskeið hjá NFL-deildinni sem er ætlað íþróttamönnum sem eru taldir eiga möguleika á að fara alla leið. Nú þegar hafa rúgbí-leikmenn komist í deildina í gegnum þennan glugga.

Það sem gerir þessa tilraun Stona áhugaverða er sú staðreynd að hann hefur aldrei prófað að spila íþróttina.

„Eina sem ég hef gert er að spila Madden tölvuleikinn,“ sagði Stona léttur.

„Ég geri mér grein fyrir því að ég þarf að leggja verulega hart að mér. Ég trúi því að ég geti náð miklum framförum í íþróttinni á 8-10 vikum. Það eru frábærir þjálfarar þarna sem munu kenna mér mikið.“

Stona er á toppnum í kringlukastinu og gæti líklega verið þar áfram. Af hverju gerir hann það ekki?

„Ég hef verið að kasta kringlu og kúlu í tíu ár. Markmiðið var að verða bestur í heiminum og það tókst. Nú þarf ég að setja mér ný markmið og því ákvað ég að fara þessa leið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×