Fótbolti

Rann­sókn felld niður í máli Mbappé

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé hefur haldið áfram að spila með Real Madrid þrátt fyrir grun um nauðgun en mál hans hefur nú verið fellt niður.
Kylian Mbappé hefur haldið áfram að spila með Real Madrid þrátt fyrir grun um nauðgun en mál hans hefur nú verið fellt niður. EPA-EFE/MICHELE MARAVIGLIA

Saksóknari í Svíþjóð staðfesti í dag að rannsókn hefði verið hætt í máli franska fótboltamannsins Kylian Mbappé, sem grunaður var um nauðgun í Stokkhólmi í október.

Marina Chirakova saksóknari segir að ekki hafi verið næg sönnunargögn fyrir hendi til þess að halda rannsókn áfram, á atviki sem átti sér stað á hóteli í sænsku höfuðborginni.

Saksóknaraembættið hefur aldrei nefnt Mbappé á nafn en sænskir fjölmiðlar greindu frá því að um þennan 25 ára leikmann Real Madrid væri að ræða, og að hann hefði verið grunaður um nauðgun og tvö tilvik af kynferðislegri áreitni.

Mbappé var staddur í Stokkhólmi í fríi í október, þegar hlé var í spænsku deildinni vegna landsleikja en hann var þá ekki í franska landsliðshópnum vegna minni háttar meiðsla.

Mbappé hefur frá upphafi haldið fram sakleysi sínu og furðað sig á fréttunum frá Svíþjóð. Málið komst aldrei á það stig að hann væri yfirheyrður vegna þess.

Hann hefur haldið áfram að spila fyrir Real Madrid eftir Svíþjóðarferð sína, og skorað fjögur mörk í síðustu sex leikjum sínum, síðast í 3-2 sigrinum gegn Atalanta í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×