Enski boltinn

Úlfastjórinn rekinn

Sindri Sverrisson skrifar
Gary O'Neil hefur verið rekinn.
Gary O'Neil hefur verið rekinn. Getty/Carl Recine

Knattspyrnustjórinn Gary O‘Neil hefur verið rekinn úr starfi hjá Wolves. Hann skilur við liðið í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins níu stig eftir sextán leiki.

Síðasti leikur Úlfanna undir stjórn O‘Neil var því dramatíska 2-1 tapið á heimavelli gegn Ipswich í gær, þar sem læti urðu eftir leik.

Ipswich er nú þremur stigum fyrir ofan Úlfana en samt enn í fallsæti. Úlfarnir eru fjórum stigum frá næsta örugga sæti.

O‘Neil, sem áður stýrði Bournemouth, tók við Wolves í ágúst á síðasta ári. Undir hans stjórn endaði liðið í 14. sæti á síðustu leiktíð en missti svo öfluga leikmenn á borð við Pedro Neto og Max Kilman í sumar.

Eftir tapið gegn Ipswich í gær virtist allt fara í upplausn hjá leikmönnum Úlfanna. Varnarmaðurinn Rayan Ait-Nouri virtist eiga eitthvað vantalað við liðsfélaga sinn og þurfti reynsluboltinn Craig Dawson að halda Ait-Nouri og hreinlega bera hann út af vellinum.

Þá lenti framherjinn Matheus Cunha í orðaskiptum við starfslið Ipswich og sást til hans ýta í andlit öryggisvarðar á vegum Ipswich sem missti gleraugun í látunum.

O'Neil viðurkenndi eftir leik að með hverju tapinu yrðu líkurnar meiri á því að hann myndi missa starfið sitt, en sagði einnig: „Þessi hópur þarf á mér að halda til að komast á þann stað að sýna hvað þeir geta, og ég mun berjast áfram fyrir þá.“

Nú er hins vegar ljóst að það kemur í hlut annars stjóra að leiða Úlfana áfram en næsti leikur þeirra er við Leicester á sunnudaginn eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×