Erlent

Einka­væðingará­form gætu hrakið Ís­rael úr Euro­vision

Atli Ísleifsson skrifar
Söngkonan Eden Golan var fulltrúi Ísraels í Eurovision sem fram fór í Malmö í Svíþjóð í maí síðastliðinn.
Söngkonan Eden Golan var fulltrúi Ísraels í Eurovision sem fram fór í Malmö í Svíþjóð í maí síðastliðinn. EPA

Stríðsrekstur Ísraela á Gasa og víðar fyrir botni Miðjarðarhafs leiddi til mikilla mótmæla þegar Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, fór fram í Malmö í Svíþjóð í maí síðastliðinn. Nú er hugsanlegt að Ísrael verði meinuð þátttaka í keppninni, þó af allt annarri ástæðu.

Shlomo Karhi, ráðherra samskiptamála í Ísrael, hefur nú lagt fram lagafrumvarp á ísraelska þinginu sem felur í sér einkavæðingu á sjónvarpsfélaginu KAN.

Verði frumvarpið samþykkt eru allar líkur á því að Ísrael missi aðild sína að Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) og þar með Eurovision sömuleiðis. Þetta kemur fram í svörum EBU við fyrirspurn Jerusalem Post, en innan vébanda EBU eru einungis sjónvarpsstöðvar í opinberri eigu.

Israel hefur tekið þátt í Eurovision frá árinu 1973 og er eitt sigursælasta landið með fjóra sigra, síðast árið 2018.

Meirihluti á ísraelska þinginu greiddi atkvæði með lagafrumvarpinu 27. nóvember síðastliðinn, en málið verður tekið til endanlegrar atkvæðagreiðslu í byrjun janúar.

Jerusalem Post segir að Karhi hafi ekki viljað tjá sig um yfirlýsingu EBU. Margir starfsmenn KAN hafa gagnrýnt einkavæðingaráformin harðlega. Þannig segir Eran Cicurel, ritstjóri erlendra frétta, að um „sjálfsmark“ sé að ræða þar sem margir hafi lengi barist fyrir því að kasta Ísrael úr keppninni vegna ástandsins á Gasa.

„Í heilt ár hafa óvinir okkar reynt að stöðva rétt Ísraels til að taka þátt í Eurovision. En nú virðist Karhi ætla að vinna vinnuna fyrir þá með því að hrekja okkur úr Eurovision,“ segir Cicurel.

Eurovision fer næst fram í Basel í Sviss í maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×