Í svari frá Reykjavíkurborg til fréttastofu um málið kemur fram að Sena, sem heldur tónleikana, hafi fengið leyfi frá Íþrótta- og sýningarhöllinni hf., sem rekur Höllina, til að selja í stæðin. Sena var upprunalega að selja í þrjú ólík stæði, A, B og C en er núna aðeins að selja í stæði B og C.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir samskiptastjóri borginnar segir alveg klárt að svæði A sé landsvæði Reykjavíkurborgar og því hafi þau bent Senu á að það mætti ekki selja aðgang að stæðunum við Engjaveg. Eftir það hafi Sena hætt að selja í stæði á svæði A.
„Þessi mál verða tekin til skoðunar á nýju ári,“ segir Eva Bergþóra.
Fjallað var um málið á vef Heimildarinnar í gær. Bílastæðin eru alla jafna gjaldfrjáls en fram kom í frétt Heimildarinnar að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem Sena selur aðgang að stæðunum. Sem dæmi hefði það verið gert á tónleikum Backstreet Boys.
Í frétt Heimildarinnar sagði framkvæmdastjóri Senu, Ísleifur Þórhallsson, að með því að selja aðgang að stæðunum væri verið að „leitast við að auka gæði tónleikahaldsins og auka þjónustu við tónleikagesti.“
Nánast uppselt er á tónleikana en ódýrustu miðarnir voru seldir á 9.990 krónur en þeir dýrustu á 29.990. Enn er hægt að kaupa VIP miða og á svæði B.