Þorgerður Katrín sagði við Heimi Má í morgun að ráðherrar Viðreisnar yrðu fjórir. Daði verði fjármálaráðherra, Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra, Hanna Katrín atvinnuvegaráðherra og hún sjálf verði utanríkisráðherra.
Krefjandi en spennandi verkefni
Daði segir að verkefnið leggist vel í hann.
„Þetta er auðvitað krefjandi verkefni en á sama tíma spennandi og mikilvægt að við náum tökum á stöðunni og reynum að vinna samhent að því að bæta stöðu almennings,“ segir hann.
Varðandi slæma stöðu ríkissjóðs segir hann að ríkisstjórnin muni stuðla að því að búa til svigrúm til að gera eitthvað í félagsmálum.
Verðbólga og vextir hafi verið á niðurleið, en nú sé samhent ríkisstjórn tekin við stjórnartaumunum, og það muni senda jákvæð skilaboð og hafa áhrif á væntingar um verðbólgu inn í framtíðina.
„Þannig ég held að þetta sé góður dagur fyrir þjóðina,“ segir Daði.