Enski boltinn

Rashford ekki með til Liverpool og sagður lasinn

Sindri Sverrisson skrifar
Macus Rashford kom aftur inn í leikmannahóp Manchester United í síðasta leik en fékk ekkert að spila.
Macus Rashford kom aftur inn í leikmannahóp Manchester United í síðasta leik en fékk ekkert að spila. Getty/Molly Darlington

Marcus Rashford verður ekki í leikmannahópi Manchester United í leiknum við erkifjendurna í Liverpool á sunnudaginn. Rúben Amorim, stjóri United, segir að Rashford sé veikur.

Amorim var með Rashford utan hóps í fjórum leikjum í desember en gaf honum svo sæti í hópnum í síðasta leik, gegn Newcastle, án þess þó að Rashford fengi svo að spila eina einustu mínútu.

Þessi 27 ára enski leikmaður virðist því ekki eiga mikla framtíð á Old Trafford og svo gæti farið að hann yfirgefi United strax í þessu mánuði, á meðan að opið er fyrir félagaskipti. Það ku þó ekki ástæðan fyrir því að hann verður ekki með gegn Liverpool:

„Í augnablikinu er hann lasinn. Hann er ekki að æfa og hann verður úr leik út þessa viku,“ sagði Amorim sem greindi hins vegar frá því að United væri að ná samkomulagi við Amad Diallo um nýjan samning, en samningur hans rennur út í sumar.

Fernandes og Ugarte snúa aftur

Bruno Fernandes og Manuel Ugarte eru klárir í slaginn með United á nýjan leik eftir að hafa tekið út leikbann í tapleiknum gegn Newcastle. Varnarmennirnir Victor Lindelöf og Luke Shaw, og miðjumaðurinn Mason Mount, eru hins vegar allir úr leik vegna meiðsla.

United er aðeins í 14. sæti úrvalsdeildarinnar, með helmingi færri stig en Liverpool sem er á toppnum. Þó að Arne Slot hafi sagt á blaðamannafundi fyrr í dag að United ætti mjög mikið inni, þá bendir ekkert til annars en öruggs sigurs Liverpool á sunnudaginn.

„Í fótbolta getur allt gerst,“ sagði Amorim í dag. „Í augnablikinu eru þeir betri en við en við getum unnið alla leiki. Við verðum að sleppa því að hugsa um samhengið og einbeita okkur að frammistöðunni. Við þurfum að bæta einföldu hlutina,“ sagði Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×