Fótbolti

Freyr til Noregs í við­ræður og Högmo tekinn við Molde

Sindri Sverrisson skrifar
Freyr Alexandersson verður í Noregi í dag í viðræðum við eitt besta lið landsins.
Freyr Alexandersson verður í Noregi í dag í viðræðum við eitt besta lið landsins. Getty/Filip Lanszweert

Tveir af þremur þjálfurum sem helst hafa verið orðaðir við starf landsliðsþjálfara Íslands í fótbolta gætu orðið keppinautar í Noregi á komandi tímabili. 

Freyr Alexandersson kemur til Noregs í dag til að halda áfram viðræðum um að taka við einu besta liði norska fótboltans, Brann, og Per-Mathias Högmo hefur verið ráðinn þjálfari Molde.

Þetta kemur fram í norskum fjölmiðlum í dag og segir Nettavisen að eftir að Brann hafi ekki náð að semja við Danann Mike Tullberg sé komið að næsta manni á lista, sem sé Freyr. Hann þyki nú afar líklegur til að taka við Brann, sem hafnaði í 2. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, aðeins þremur stigum á eftir meisturum Bodö/Glimt.

Hinn norski Högmo, sem KSÍ er sagt hafa rætt við sem mögulegan kandídat í landsliðsþjálfarastarf, lenti í Molde í dag og er að taka við liði bæjarins. Molde endaði í 5. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

KSÍ hefur einnig rætt við Arnar Gunnlaugsson, sem öfugt við hina tvo er í starfi sem þjálfari Víkings, um landsliðsþjálfarastarfið.


Tengdar fréttir

Freyr einnig í viðtal og einn erlendur

Freyr Alexandersson, fyrrum stjóri Kortrijk í Belgíu, fer í starfsviðtal hjá KSÍ líkt og Arnar Gunnlaugsson. Þriðji aðilinn er erlendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×