Fótbolti

Bitur reynsla Arnars nú skila­boð til leik­manna Ís­lands: „Í guðanna bænum“

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson vill að leikmenn landsliðsins noti sinn landsliðsferil sem víti til varnaðar.
Arnar Gunnlaugsson vill að leikmenn landsliðsins noti sinn landsliðsferil sem víti til varnaðar. vísir/anton

Skila­boð Arnars Gunn­laugs­sonar, nýráðins lands­liðsþjálfara ís­lenska karla­lands­liðsins í knatt­spyrnu, til leik­manna sinna í lands­liðinu eru skýr og þau skila­boð dregur hann sem lær­dóm af sínum lands­liðs­ferli. Hann vill að leik­menn Ís­lands taki lands­liðs­ferlinum ekki sem sjálfsögðum hlut. „Þetta er mesti heiður sem þér getur hlotnast sem leik­maður, að spila fyrir þína þjóð.“

Arnar er skiljan­lega mjög stoltur með að hafa landað lands­liðsþjálfara­starfinu sem mætti telja að væri drauma­starf allra ís­lenskra þjálfara. Hann samdi við KSÍ til ársins 2028. Þessum tíma­mótum fylgja hins vegar blendnar til­finningar. Arnar hefur gert gríðar­lega vel með lið Víkings Reykja­víkur undan­farin ár. Komið liðinu á topp ís­lenskrar knatt­spyrnu og hann segir erfitt að yfir­gefa heima­völl hamingjunnar.

„Þetta hefur verið rússíbana­ferð síðustu sólar­hringa, miklar til­finningar,“ segir Arnar. „Bæði er ég hrika­lega ánægður með að landa þessu starfi, þetta er stærsta starf fyrir ís­lenskan þjálfara, en svo líka kemur hin hliðin og ég er óhræddur við að segja frá henni. Það er erfitt að yfir­gefa Víkingana mína. Þetta hefur verið mín fjöl­skylda í mörg ár, ótrú­legt sam­band og ótrú­legt sam­starf við stuðnings­fólkið, starfs­fólkið, leik­menn, þjálfara og alla sem koma að félaginu. Hún verður erfið, kveðju­stundin þegar að ég fer í Víkina og segi bless við alla. En fyrst og fremst, til að ljúka þessu til­finningaflóði, er ég ótrú­lega stoltur. Alveg ótrú­lega stoltur og ætla að gefa mig allan í þetta starf, leggja mig allan fram. Lofa því að það verður engum steini ekki velt til að ná árangri fyrir okkar þjóð.“

Klippa: Skilaboð Arnars til leikmanna Íslands

Sölvi fullkominn arftaki

Víkingar eru að rita nýjan kafla í sögu ís­lenskrar knatt­spyrnu með því að vera komnir alla leið í um­spil um sæti í 16-liða úr­slit Sam­bands­deildarinnar og fram­u er ein­vígi gegn gríska stór­liðinu Pan­at­hinai­kos í næsta mánuði. Arnar segir það aldrei hafa komið til greina að stýra Víkingum í síðasta sinn í því verk­efni áður en hann helgaði sig að fullu lands­liðsþjálfara­starfinu.

„Nei. Það var aldrei, kom aldrei ósk frá Víkingunum, aldrei ósk frá mér og aldrei talað um þetta með KSÍ af því að ég held að það hefði verið vont fyrir alla aðila. Fyrir mig, lands­liðið, fyrir Víkinga og Sölva Geir. Þetta er full­kominn tíma­punktur. Full­kominn tíma­punktur fyrir hann að fá sína eld­skírn í svona leikjum. Full­kominn tíma­punktur til þess að slíta nafla­strenginn núna strax.“

Sölvi Geir Ottesen Vísir/Pawel

Sölvi Geir Otte­sen, að­stoðarþjálfari Víkings Reykja­víkur í þjálfara­t­eymi Arnars mun taka við liðinu. Þeir áttu gott sam­starf að­spurður hvort hann hafi haft puttana í því ferli að ákveða hver eftir­maðurinn yrði hafði Arnar þetta að segja:

„Bara í ein­hverjum samtölum. Ég held að þetta sé alveg ljóst. Sölvi er full­kominn í þetta starf. Hann þekkir allt út og inn þarna í Víkinni, veit hvað allt snýst um. Hrika­lega sterkur karakter með sterka nær­veru á hliðar­línunni. Enda hefur hann fengið nægi­lega reynslu þess að taka við stjórn leikja í öllum mínum leik­bönnum. Eins og ég talaði um sam­stöðu um mína ráðningu sem lands­liðsþjálfara á blaða­manna­fundinum þá held ég að það sé jafn­vel meiri sam­staða með hann sem næsta þjálfara Víkings.“

Í guðanna bænum ekki taka þessu sem sjálfsögðum hlut

Fyrir þjálfara­ferilinn býr Arnar að ferli sem at­vinnu- og lands­liðs­maður í knatt­spyrnu. Hann lék 33 A-lands­leiki á sínum ferli og frá lands­liðs­ferli sínum dregur hann lær­dóm sem hann vill koma á fram­færi við núverandi lands­liðs­menn Ís­lands.

„Mín skila­boð til strákanna. Ég tók lands­liðs­ferli mínum sem allt of sjálfsögðum hlut. Ég spilaði þrjátíu og þrjá lands­leiki á mínum ferli og var kominn með flesta þeirra mjög snemma, tuttugu og tveggja til tuttugu og þriggja ára gamall. Ég hélt ég væri að fara sigra heiminn en næstu tíu til fimmtán árin spilaði ég bara ein­hverja fimm til sex lands­leiki. Bara í guðanna bænum ekki taka þessu sem sjálfsögðum hlut. Þetta er mesti heiður sem þér getur hlotnast sem leik­maður, að spila fyrir þína þjóð. Leggið ykkur alla fram, sýnið metnað, áhuga og ástríðu. Það eru mín skila­boð til leik­mannanna. Þið vitið aldrei hvenær ferlinum lýkur, reynið að mjólka lands­liðs­ferilinn eins lengi og þið getið.“

Goðsagnir í leiknum

Og á sínum lands­liðs­ferli spilaði Arnar undir stjórn nokkurra lands­liðsþjálfara sem hann horfir til á þessum tíma­mótum og hefur lært af.

Atli Eðvaldsson er einn þeirra þjálfara sem Arnar spilaði undir hjá íslenska landsliðinuMynd/Arnþór

„Við erum að tala um goð­sagnir í leiknum. Ás­geir heitinn Elías­son sem tók mig fyrst inn í lands­liðs­hópinn 1993, Guðjón Þórðar­son, Loga Ólafs en ég var reyndar lítið með honum því ég var mikið meiddur, Atli Eðvalds­son tók mig inn í lokin. Þetta eru nöfn sem allir knatt­spyrnuáhuga­menn þekkja og auðvitað tekur maður ein­hvern lær­dóm frá öllum þessum miklum meisturum og því hvernig þeir nálguðust þetta verk­efni. Þetta er öðru­vísi verk­efni en að vera þjálfari félagsliðs. Jú það eru fullt af eigin­leikum sem þú getur notað en líka fullt af eigin­leikum sem þú getur lært af.“

Núverandi gullkynslóð á betri stað en sú fyrri

Arnar sér gríðar­lega mögu­leika með ís­lenska lands­liðinu.

„Það hefur gengið á ýmsu undan­farin fjögur til fimm ár. Alls konar mál hingað og þangað. Mér finnst lands­liðið núna vera að rétta úr kútnum, finnst eins og gull­kynslóðin núna sé á ör­lítið betri stað heldur en gull­kynslóðin var á sínum tíma á þessum aldri. Merki þessi eru kannski að við erum með fleiri unga leik­menn sem eru að spila hjá stærri liðum og gera sig meira gildandi.“ 

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki gegn Ungverjum á EM 2016. Gullkynslóðin sem skrifaði söguna. Nær hin síðari gullkynslóð að endurtaka hana? Getty/Lars Baron

„Svo er það þeirra, með hjálp okkar, að sjá til þess að þeir verði jafn mikilvægir og góðir og gull­kynslóðin endaði með því að verða með því að koma okkur á stór­mót og ná góðum árangri. Mögu­leikarnir eru gríðar­legir. Það er gríðar­lega spennandi að vera lands­liðsþjálfari, enda held ég að KSÍ hafi fengið fullt af um­sóknum, þjálfarar víðs vegar að úr heiminum hafi séð þetta sem mjög eftir­sóknar­vert og spennandi starf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×