Sprengjan sprakk í þann mund sem Armen Sakisjan, sem Úkraínumenn saka um að vinna með Rússum í Donetsk, gekk inn í anddyri hússins ásamt fjórum lífvörðum, að sögn rússneskra fjölmiðla. Sarkisjan var fluttur helsærður á sjúkrahús þar sem hann lést og einn lífvarða hans lést á vettvangi. Hinir þrír eru sagðir þungt haldnir á sjúkrahúsi.
TASS-ríkisfréttastofan hefur eftir löggæsluyfirvöldum að morðtilræðið hafi verið þaulskipulagt. Rannsóknin beinist að því hver hafi fyrirskipað tilræðið.

Úkraínska leyniþjónustan SBU lýsti Sarkisjan sem „glæpaforingja“ í Donetsk sem hefur að stórum hluta verið á valdi Rússa frá árinu 2014, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Hann væri grunaður um að aðstoða og taka þátt í starfsemi ólöglegra vopnaðra hópa. Sarkisjan hefði stýrt vopnaðri sveit sem styddi Rússa og væri skipuð sakamönnum.
Skammt er síðan Úkraínumenn réðu Igor Kirillov, rússneskan herforingja, af dögum með sprengju fyrir utan íbúðablokk í Moskvu. Stjórnvöld í Kænugarði hafa enn ekki tjáð sig um sprenginguna í Moskvu í dag.
Fréttin var uppfærð eftir að staðfest var að Sarkisjan hefði látist af sárum sínum.