Grískir miðlar fara ekki mjúkum höndum um lið Panathinaikos í kjölfar tapsins. Nikos Athanasiou, blaðamaður Gazettunnar í Grikklandi segir frammistöðu liðsins og tapið óásættanlegt og óafsakanlegt með öllu.
„Leikmenn Panathinaikos voru vonlausir gegn leikmönnum Víkings sem spiluðu þennan leik eins og hann væri þeirra síðasti, þeir sýndu dug og hjarta, hugrekki og höfðu skýrt plan. Þeir gerðu lítið úr hátt launuðum kollegum sínum.“
Hann vill að þeir 150 stuðningsmenn Panathinaikos sem gerðu sér ferð til Helsinki fái miðann sinn endurgreiddan.
„Þeir eyddu miklum fjárhæðum til að geta komist til Helsinki, studdu við bakið á liðinu í heimskautskulda og snúa nú aftur sorgmæddir til Aþenu. Þeir horfðu á þessa hörmungar frammistöðu á með eigin augum á staðnum. Mér finnst það lágmarks krafa að Panathinaikos sýni þeim þá virðingu að endurgreiða þeim miðann sinn og bjóða þeim frítt á næsta leik.“
Það var Davíð Örn Atlason sem kom Víkingum yfir í gær með sínu fyrsta Evrópumarki.
Matthías Vilhjálmsson tvöfaldaði svo forystu Víkinga á 56.mínútu áður en gestirnir minnkuðu muninn af vítapunktinum undir blálokin.
Leftera Bakolias, blaðamaður SDNA tekur í svipaðan streng og kollegi sinn hjá Gazettunni. Úrslitin í gær séu niðurlægjandi fyrir Panathinaikos.
„Þetta tap er skammarlegt. Kvöld niðurlægingar í sögu Panathinaikos. Hver sá sem klæðist treyju félagsins hefur engan rétt á því að smána félagið svona.“
Panathinaikos sé núna aðhlátursefni.
Seinni leikur Panathinaikos og Víkings Reykjavíkur, sem verður sýndur í beinni á Vodafone Sport, fer fram í Aþenu eftir tæpa viku. Víkingur leiðir einvígið 2-1 en samanlögð úrslit úr leikjunum tveimur skera úr um það hvort liðið kemst í 16-liða úrslit Sambandsdeildar Evrópu.