Enski boltinn

Antony með fleiri mörk í febrúar en allt Man. United liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony fagnar marki með Real Betis en það hefur lítið gengið að skora hjá leikmönnum Manchester United i síðustu leikjum.
Anthony fagnar marki með Real Betis en það hefur lítið gengið að skora hjá leikmönnum Manchester United i síðustu leikjum. Getty/Alex Pantling/GERRIT VAN KEULEN

Antony var hálfgerður blóraböggull fyrir slakt gengi Manchester United síðan félagið eyddi 82 milljónum punda í hann haustið 2022.

Kannski ekkert skrýtið enda skilaði fjórtán milljarða fjárfesting litlu inn á vellinum og undir lokin þá var hann ekki lengur inn í myndinni hjá knattspyrnustjórum liðsins.

Hver hefur ekki heyrt stuðningsmann United liðsins bölva Antony á síðustu mánuðum. Þeir hinir sömu ættu þá að sjá hann núna.

United ákvað því að lána Antony til spænska liðsins Real Betis í síðasta mánuði. Hann hefur algjörlega blómstrað á nýjum stað á suður Spáni.

Margir sjá þetta sem táknmynd fyrir ástandið á Old Trafford og frammistaða Antony hafi verið bein afleiðing af því. Hann hefur í það minnsta spilað stórkostlega á Spáni.

Antony hefur verið allt í öllu hjá Real Betis, hefur komið að fjórum mörkum í þremur leikjum og hann var valinn besti maður vallarins í þeim öllum.

Kannski er það grálegasta fyrir stuðningsmenn að sjá að Antony hefur skorað fleiri mörk í febrúar (3) en allt lið Manchester United (2) til samans.

Hann hefur losnað úr myrkrinu og volæðinu í Manchester og skipt því út fyrir sólina og gleðina í Sevilla þar sem hann elskaður og dáður af stuðningsmönnum Real Betis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×