Fótbolti

Talar við látna móður sína fyrir hvern leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicky Hayen, þjálfari belgíska félagsins Club Brugge fagnar hér sigrinum óvænta á Atalanta í gær.
Nicky Hayen, þjálfari belgíska félagsins Club Brugge fagnar hér sigrinum óvænta á Atalanta í gær. Getty/Francesco Scaccianoce

Nicky Hayen, þjálfari Club Brugge, er að gera frábæra hluti með liðið í Meistaradeildinni en belgíska félagið komst í gærkvöldi í sextán liða úrslit keppninnar.

Club Brugge fór til Ítalíu og vann 3-1 útisigur á Atalanta. Belgarnir unnu þar með 5-2 samanlagt því þeir unnu fyrri leikinn 2-1. Þetta voru ein óvæntustu úrslitin í umspilinu til þessa.

Blaðamannafundur þjálfarans fyrir leikinn mikilvæga vakti líka nokkra athygli.

Hinn 44 ára gamli Hayen viðurkenndi þá að tala við móður sína fyrir hvern leik. Það væri svo sem ekkert óeðlilegt nema vegna þess að hún er ekki á lífi.

Hayen missti móður sína fyrir fjórum árum.

„Ég tala við móður mína fyrir hvern leik. Hún lést fyrir fjórum langt fyrir aldur fram,“ sagði Nicky Hayen.

„Á síðasta tímabili fyrir úrslitakeppnina í belgísku deildinni þá sagði ég henni að ég vildi gera eitthvað klikkað og að lokum þá unnum við titilinn,“ sagði Hayen.

„Er ég mjög trúaður? Nei, en mér finnst þetta gefa mér eitthvað. Ég verð því að trúa að það sé eitthvað þarna úti,“ sagði Hayen.

Hayen fékk fastráðningu sem þjálfari Club Brugge í júní í fyrra. Hann hafði tekið tímabundið við í marsmánuði.

Liðið er nú komið í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar og er i öðru sæti belgísku deildarinnar, átta stigum á eftir Genk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×