Neytendur

Vonar að Icelandair sjái sóma sinn í að bæta fólki tjónið

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kristján Hjálmarsson vonar að Icelandair sjái sóma sinn í því að bæta farþegum tjón vegna flugferðarinnar. Félagið ætti að tryggja að svona lagað endurtaki sig ekki.
Kristján Hjálmarsson vonar að Icelandair sjái sóma sinn í því að bæta farþegum tjón vegna flugferðarinnar. Félagið ætti að tryggja að svona lagað endurtaki sig ekki.

Farþegi um borð í Airbus-flugvél Icelandair, sem gat ekki lent í Osló vegna þoku og endaði í Stokkhólmi í morgun, er ekki sáttur með vinnubrögð flugfélagsins. Litlar upplýsingar hafi fengist frá félaginu, farþegar séu settir í óþægilega stöðu og verði bæði af peningum og tíma. 

Ekki var hægt að lenda Airbus-farþegaþotu Icelandair í þoku í Osló í morgun vegna þess að flugmenn félagsins eru enn í þjálfun á flugvélunum. Farþegum var boðið að stíga frá borði í Stokkhólmi eða fljúga aftur heim til Íslands.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði allar ferðir Airbus-vélinni vera þjálfunarferðir á meðan verið væri að taka hana í notkun. Reglur um þjálfunarflug kveði á um að skyggni þurfi að vera gott til lendingar og því var ekki hægt að lenda henni.

Kristján Hjálmarsson og fjölskylda hans var um borð í flugvélinni. Fjölskyldan var á leið í skíðaferð til Lillehammer þegar starfsfólk Icelandair tilkynnti farþegum að ekki væri hægt að lenda flugvélinni í Osló. Fjölskyldan endaði á að taka sex tíma lestarferð til Oslóar og vonast eftir því að fá hótelherbergi í nótt.

Þú ert væntanlega ekki sáttur?

„Maður upplifir svolítið eins og maður sé hluti af einhverju æfingaflugi hjá þeim. Vélin var full af fólki og þegar það eru þrjú korter í lendingu, innan við það, þá fáum við upplýsingar um að vegna þoku sé ekki hægt að lenda,“ segir Kristján.

„Farþegum var ekkert tilkynnt að ástæðan hafi verið reynsluleysi eða að þetta hafi verið þjálfunarflug. Það kemur svolítið á óvart að það hafi þá ekki verið einn flugmaður með reynslu,“ segir hann.

Fólk sett í vonda stöðu

Flugvélin lenti í Stokkhólmi og segir Kristján að farþegar hafi þá verið settir í heldur „óþægilegar aðstæður“ þegar þeim var tilkynnt að þeir gætu flogið aftur heim til Íslands eða farið út í Stokkhólmi. Fólk gæti hins vegar ekki tekið farangurinn sinn með því hann myndi fara aftur til Íslands og yrði svo sendur með næstu vél til Oslóar.

„Þarna byrjar pínu panikk hjá fólki, það veit ekki alveg hvað það eigi að gera,“ segir hann. Þá hafi þeim verið tilkynnt að eiginlega öll flug frá Arlanda til Gardemoen hafi verið uppbókuð.

Einhverjir farþegar hafi velt því fyrir sér að fljúga heim og reyna að fljúga aftur út á morgun. Fólk hafi hins vegar ekki fengið að vita hvort það væri yfirhöfuð laust í það flug. Á endanum hafi því nánast allir farið út og fólk strax farið að velta því fyrir sér hvernig það ætlaði að koma sér á næsta réttan áfangastað.

„Þetta er svo skammur fyrirvari sem fólk hefur,“ segir Kristján. Ekki nóg með að fólk hafi þurft að finna sér einhvern fararmáta heldur mögulega líka nýjan gististað.

Upplifir sig sem tilraunadýr

„Maður upplifir eftir að hafa séð þessar fréttir að maður sé að taka þátt í æfingaflugi Icelandair og það er heldur lélegt. Erum við einhver tilraunadýr?“ spyr Kristján.

Farþegar hafi sömuleiðis ekki verið upplýstir um að flugferðin hafi verið þjálfunarflug og það ástæðan fyrir því að ekki mætti lenda flugvélinni. Áhöfnin hafi tjáð þeim að veðrið og þokan væri ástæðan. Það hafi ekki verið fyrr en einn farþeganna minntist á þetta að áhöfnin viðurkenndi raunverulegu ástæðuna.

Buguð börn sem voru í flugi Icelandair komin í lest frá Stokkhólmi til Oslóar. Sex tíma ferðalag framundan.

„Þetta var full vél af fólki, nokkrar íslenskar fjölskyldur á leiðinni í skíðaferðalag í vetrarfríinu, einhverjir Asíubúar á leiðinni heim og konur á leið til Dúbaí,“ segir hann. Seinni hóparnir tveir hafi væntanlega verið á leið í millilandaflug en misst af því eftir þessa uppákomu.

Kristján segir starfsfólk Icelandair hafa verið skilningsríkt en farþegar hafi ekki fengið miklar upplýsingar frá þeim.

„Bara að farangurinn kæmi með næsta flugi en svo vitum við ekkert hvort við fáum hann á morgun. Þetta er fimm daga skíðaferðalag hjá okkur, ég er á gallabuxum og með tölvuna með mér, ég renni mér ekki á tölvunni,“ segir Kristján kíminn.

Þegar heimasíða Gardemoen var skoðuð segir Kristján að allar aðrar flugvélar sem áttu að lenda á svipuðum tíma, bæði fyrir og eftir, hafi lent á vellinum. Það geri málið enn súrara.

Treysta á guð og lukkuna

Kristján og fjölskylda hans lögðu þó ekki árar í bát og ætla að koma sér til Oslóar.

„Núna erum við á leiðinni í lest frá Stokkhólmi til Oslóar sem tekur sex tíma þannig við verðum komin á miðnætti. Við finnum okkur vonandi eitthvað hótel á leiðinni,“ segir hann.

Upphaflega ætlaði fjölskyldan að taka lest til Lillehammer frá Osló en komast ekki þangað fyrr en í fyrsta lagi á morgun. 

„Við verðum bara að treysta á Guð og lukkuna,“ segir Kristján um hótel-leitina. Hann segir þau heppin að vera bara þrjú saman að ferðast enn ekki fleiri eins og sé raunin hjá mörgum.

Vonar að Icelandair tryggi að þetta komi ekki upp aftur

Kristján segir það verða fróðlegt að sjá hvort farangurinn skili sér til farþega á morgun. Þá veltir hann því líka fyrir sér hvernig Icelandair ætli að bæta farþegum tjónið.

„Það er svolítið eins og það sé verið að leika sér með ferðalög fólks. Af hverju er ekki allavega einn reyndur flugmaður um borð?“ segir hann. Þoka í Noregi í febrúar ætti sömuleiðis ekki að koma fólki á óvart.

Á sama tíma lendi allt vesenið á farþegum en ekki flugfélaginu. Hann hafi fengið einn póst vegna málsins frá Icelandair þar sem hann þurfi að fylla út skjöl um hvaða töskur fjölskyldan var með.

„Þetta er afskaplega óheppilegt, það verður að viðurkennast. Kemur sér ekki vel fyrir fjölda fólks og ég vona að Icelandair sjái sóma sinn í að bæta fólki þetta upp og tryggja að þetta komi ekki upp aftur,“ segir Kristján að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×