Neytendur

Stytta skammar­krókinn til muna

Atli Ísleifsson skrifar
Með breytingunum á reglunum er ætlunin að bæta aðgengi og tryggja betri nýtingu tímanna.
Með breytingunum á reglunum er ætlunin að bæta aðgengi og tryggja betri nýtingu tímanna. Vísir/Vilhelm

Forsvarsmenn World Class hafa stytt skráningarbann í hóptíma í líkamsræktarstöðvum fyrirtækisins verulega. Bannið nær nú til þriggja daga en var áður átta dagar.

Þetta kemur fram í tilkynningu World Class til korthafa sinna. Þar segir að breytingarnar séu gerðar á skráningu og afskráningu í hóptíma til að bæta aðgengi og tryggja betri nýtingu tímanna.

Skráningartíminn hefur verið styttur í 2 daga og skammarkrókur í 3 daga. Skráning í tíma opnar nú 49 klukkustundum fyrir upphaf tímans en skráning í fyrstu morguntíma klukkan 21 tveimur kvöldum fyrir tímann. Skráningu í tíma lýkur 50 mínútum fyrir upphaf tímans.

Eftir að skráningu lýkur, 50 mínútum fyrir tíma, er ekki lengur hægt að afskrá sig. Fólk sem sér ekki fram á að mæta er vinsamlegast beðið um að afskrá sig tímanlega, bæði úr tímum og af biðlistum, svo aðrir geti nýtt plássið.

Skráningarbann hjá korthöfum sem gleyma að afskrá sig er nú stytt í þrjá daga en það var áður átta dagar. Skammarkrókurinn gildir um alla tíma. Þá segir að lágmarksfjöldi skráðra sé tíu til að kennsla fari fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×