Fleiri fréttir

Pink tók sjálf óléttumynd og setti á Twitter

Söngkonan Pink er vön því að vera umsetin af blaðaljósmyndurum, eða papparössum eins og þeir eru gjarnan kallaðir. Eftir að hún tilkynnti um óléttu sína hefur hún þó verið heldur þreytt á ágangi þeirra sem virðast leggja margt á sig til að ná myndum af henni þar sem óléttubumban sést. Pink tók því málin í eigin hendur og setti mynd af sér á Twitter-samskiptasíðuna. Með myndinni skrifaði hún: „Jæja... því papparrassar hafa enga ljósmyndahæfileika eða listrænt innsæi, og myndirnar þeirra eru ógeðslegar... Fyrir ykkur sem hafið veirð að biðja um að sjá myndir af bumbunni minni ákvað ég að setja hér inn sjálfsmynd sem ég tók í gærmorgun. Þriggja vikna ljósmyndanámskeið ... og ég er strax miklu betri ljósmyndari en þeir allir til samans...“

Landsmenn nálgast 320 þúsund

Landsmenn voru 318.452 talsins þann 1. janúar síðastliðinn og hafði fjölgað um 822 frá sama tíma í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þetta jafngildir fjölgun landsmanna um 0,3%.

Börn sem borða mikið ruslfæði hafa lægri greind

Börn sem borða mikið ruslfæði eru líklegri til að vera með lægri greindarvísitölu en börn sem borða hollan mat. Þetta er niðurstaða breskrar rannsóknar sem birtist í vísindaritinu Journal of Epidemiology and Community Health.

Sonur Ólafs metinn sakhæfur

Þorvarður Davíð Ólafsson, sem réðst með hrottafengnum hætti á föður sinn, Ólaf Þórðarson, í nóvember, er sakhæfur. Þetta er niðurstaða geðrannsóknar sem hann hefur gengist undir, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Japanskir súmókappar riða til falls

Margir af þekktustu súmóglímuköppum Japans hafa verið yfirheyrðir síðustu daga en ásakanir hafa komið fram um að þeir hafi hagrætt úrslitum í þessari þjóðaríþrótt Japans.

Spáir stormi í dag

Veðurstofan spáir stormi, eða 18 til 25 metrum á sekúndu, á Suðvesturlandi upp úr hádegi og að það fari að hlýna.

Forstjórinn valdi fyrrum yfirmann sem eftirmann

Bjarni Bjarnason verður næsti forstjóri Orkuveitunnar samkvæmt ákvörðun stjórnar fyrir­tækisins í gær. Bjarni er forstjóri Landsvirkjunar Powers, dóttur­félags Landsvirkjunar.

Segja Assange ofsóttann af illgjörnum öfgafemínista

Sænski saksóknarinn sem vill fá Julian Assange stofnanda Wikileaks framseldan til Svíþjóðar er á móti karlmönnum, ef marka má orð sænsks dómara á eftirlaunum sem gaf vitnisburð sinn í réttarhöldum yfir Assange í London í gær.

Umarov segist bera ábyrgð á sprengjuárásinni í Moskvu

Eftirlýstasti hryðjuverkamaður Rússlands, tjéténinn Doku Umarov, hefur lýst ábyrgðinni á sprengjuárásinni á Demo-ded-ovo flugvellinum í Moskvu á hendur sér. Árásin var framin þann 24 janúar síðastliðinn og létust 36 og 180 særðust.

Stálu 30 þúsund sígarettum

150 kartonum, eða fimmtánhundruð pökkum af sígarettum og einhverju af skiptimynt var stolið úr söluturni við Starengi í Reykjavík í nótt og komst þjófurinn undan. Tilkynnt var um innbrotið um klukkan þrjú en þjófurinn var á bak og burt þegar lögregla kom á vettvang. Verið er að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum á vettvangi, en niðurstaða úr þeirri skoðun hefur ekki enn leitt til handtöku.

Harður árekstur á Akureyri

Ökumenn tveggja bíla sluppu ómeiddir þegar bílarnir skullu harkalega saman á mótum Þingvallastrætis og Þórunnarstrætis í gærkvöldi.

Verkfall samþykkt í Eyjum

Mikill meirihluti starfsmanna í báðum fiskimjölsverksmiðjunum í Vestmannaeyjum samþykktu tillögu um verkfallsboðun, í atkvæðagreiðslu í gær.

ASÍ átti von á tölum um þörf í stað neyslu

Velferðarráðuneytið kynnti í gær ný neysluviðmið fyrir Íslendinga sem hópur sérfræðinga hefur reiknað út. Við útreikning neysluviðmiðanna var stuðst við rannsóknir Hagstofunnar á raunverulegri neyslu og gefin upp miðgildi miðað við ýmsar aðstæður. Kemur meðal annars fram að meðaltalsgildi neyslu fjölskyldu með tvö börn er 618 þúsund krónur á mánuði.

Mótmælendur fara hvergi

Efnahagslífið í Egyptalandi er að komast í gang að nýju eftir rúmlega vikulanga lömun. Skólar voru þó áfram lokaðir í gær. „Þetta er miklu betra en í gær eða fyrradag. Venjulegt fólk er komið á stjá og skoðar sig um. Við erum meira að segja með umferðarteppu,“ hafði AP-fréttastofan eftir Ahmed Mohammed, 65 ára verslunareiganda í Kaíró.

Serbar krefjast nýrra kosninga

Fjölmennustu mótmæli gegn stjórnvöldum í áraraðir fóru fram í Belgrad, höfuðborg Serbíu, á sunnudag þegar um 55.000 manns kröfðust kosninga.

Fjögurra manna fjölskylda notar 618 þúsund á mánuði

„Menn mega ekki hafa þær væntingar að hér sé verið að svara öllum spurningum heldur erum við fyrst og fremst að hefja vinnuna,“ sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra þegar hann kynnti í gær þrenns konar ný neysluviðmið fyrir Íslendinga.

Treystir ekki réttarkerfi Svía

Geoffrey Robertson, lögmaður Julians Assange, segir að verði Assange framseldur til Svíþjóðar eigi hann á hættu að brotið verði á réttindum hans.

Vill Agnesi á bak við lás og slá

Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri á DV, krefst þess að Agnes Bragadóttir, blaðamaður Morgunblaðsins, verði dæmd í fangelsi fyrir ærumeiðandi ummæli í sinn garð. Hann telur brotið svo alvarlegt að ekki sé rétt að sú fangelsisrefsing verði skilorðsbundin. Þetta kemur fram í stefnu sem þingfest verður í Héraðsdómi á fimmtudag.

Vottaði unnustunni samúð eftir morðið

Gunnar Rúnar Sigurþórsson, sem játað hefur að hafa orðið Hannesi Þór Helgasyni að bana í ágúst á síðasta ári, sendi unnustu Hannesar samúðarkveðjur og hringdi í hana eftir verknaðinn.

Flugmálastjórn breyti verklagi og efli samkeppni

Afgreiðsla Flugmálastjórnar Íslands á flugréttindum hér á landi raskar samkeppni í áætlunarflugi til og frá landinu, að því er fram kemur í nýrri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Sveik út 800 vinnustundir

Svæfingalæknir á sextugsaldri hefur verið dæmdur í eins árs fangelsi fyrir að svíkja 4,7 milljónir króna út úr Tryggingastofnun ríkisins. Níu mánuðir refsingarinnar eru skilorðsbundnir. Læknirinn er dæmdur fyrir að hafa framvísað 265 röngum reikningum þar sem hann krafðist greiðslu fyrir samtals 800 vinnustundir sem lögreglurannsókn sýndi að hann hafði ekki innt af hendi. Hann virðist líka hafa reynt að villa um fyrir lögreglu með því að ljúga því að svæfingaskýrslurnar hefðu allar glatast.

Tugir íbúðarhúsa brunnu til grunna

Ástralskir slökkviliðsmenn börðust við gróðurelda á tveimur stöðum í vestanverðri álfunni í gær. Varpað var vatni á eldana til að reyna að halda þeim í skefjum.

Goðsögn orðin til um Ronald Reagan

Ronalds Reagan var víða minnst í Bandaríkjunum í gær þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu hans. Reagan gegndi embætti forseta Bandaríkjanna frá 1981 til 1989 og er í dag í hópi vinsælustu forseta. Fjöldi sagnfræðinga hefur við þessi tímamót fjallað um arfleifð Reagans en mörgum þykir sem sú ímynd sem haldið er uppi af Reagan í dag eigi ekki endilega við rök að styðjast.

Benedikt í landsdóm í stað Bjargar

Benedikt Bogason, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, mun taka sæti Bjargar Thorarensen prófessors í landsdómi. Björg er vanhæf til að sitja í dómnum vegna þess að eiginmaður hennar, Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, situr í honum.

„Veikur heima dagurinn" er í dag

Breskir atvinnurekendur búast við að met hafi verið slegið í dag varðandi það hve margir hafi hringt sig inn veika. Tölfræðigögn sýna að fyrsta daginn í febrúar séu fleiri veikir heima en á nokkrum öðrum degi ársins. Í ár búast menn við enn meiri veikindum en venjulega og er búist við að allt að 375 þúsund manns hafi legið í rúminu í dag.

Uppreisn um borð í farþegaþotu á Kanarí

Belgískir sólarlandafarar fengu sig fullsadda á flugvellinum á Kanaríeyjum í gær og gerðu uppreisn um borð í farþegaflugvél frá Ryanair. Einn farþeginn brást ókvæða við þegar flugfreyjurnar ætluðu að rukka hann fyrir að vera með of mikinn handfarangur. Hann þverneitaði að borga og félagar hans komu honum til varnar. Æstust leikar og að endingu sá flugstjórinn ekki annað ráð en að kalla á lögregluna, en vélin var við það að fara í loftið.

Breskur blaðamaður rekinn frá Rússlandi

Blaðamaður breska blaðsins The Guardian hefur verið rekinn frá Rússlandi. Þetta er í fyrsta skipti frá lokum kalda stríðsins sem breskur blaðamaður hefur verið vísað úr landinu. Luke Harding, sem var fréttaritari Guardian í Moskvu um árabil, hefur að undanförnu skrifað um sendiráðsskjölin sem Wikileaks gerði opinber á dögunum. Á meðal þess sem Harding greindi frá voru ásakanir á hendur Vladimir Putin, forsætisráðherra og fyrrum forseta, á þá leið að Rússland væri orðið að einskonar mafíuríki undir hans stjórn.

Hljóp 365 maraþon á einu ári

Belgíski hlauparinn Stefaan Engels setti í gær nýtt heimsmet þegar hann kom í mark í 365. maraþonhlaupinu sínu á einu ári. Hinn 49 ára gamli Engels, sem oft er kallaður Maraþonmaðurinn, hóf þetta mikla verkefni í Belgíu fyrir einu ári og hefur hlaupið eitt maraþon á dag síðan þá. Alls hefur hann því hlaupið um 15.000 kílómetra í sjö löndum.

Vill fresta ráðningu Bjarna sem forstjóra Orkuveitunnar

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur vill að ráðningu forstjóra fyrirtæksins verði frestað. Hann hefur gert athugasemdir við ráðningaferlið en fyrir borgarráði er nú til meðferðar tillaga um að borgarlögmanni verði falið að skoða ráðningarferlið.

Bretar styðja Íslendinga í aðildarviðræðunum

Breska forsætisráðuneytið segir Bretland styðja Íslendinga í aðildarviðræðum sínum við ESB. Þetta kemur fram í svari við fyrirpurn Össurar Skarphéðinssonar um ummæli sjávarútvegsráðherra Breta um að ESB ætti að fresta aðildarviðræðum við Ísland þar til lausn finnist á makríldeilunni.

Agnes verði dæmd til þungrar refsingar

„Öll hin umstefndu ummæli eru ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk eru því miklir," segir í stefnu Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, fyrir hönd Inga Freys fréttastjóra á DV, vegna fréttar Morgunblaðsins 31. janúar um hina svokölluðu njósnastölvu á Alþingi.

Fimm ára verkefni í Malaví á teikniborðinu

Hjálparstarf Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) undirbýr á þessu ári nýtt fimm ára verkefni í lýðheilsu með héraðsstjórn Mangochi í Malaví. Stefán Jón Hafstein, umdæmisstjóri ÞSSÍ í Malaví, segir hugmyndina þá að Rauði krossinn geti hugsanlega haft hlutverk í verkefninu. Í tilkynningu ÞSSÍ er eftir honum haft að Rauði kross Íslands hafi um nokkurra ára hríð starfað í Malaví og að reynslan af þeim verkefnum þyki góð.

Segja rök þingmanna byggð á vanþekkingu

„Tillögunni er beint gegn starfsemi ORF Líftækni. Þetta eru kaldar kveðjur en við höfum ekki trú á að þessi tillaga verði samþykkt enda byggir hún ekki á vísindalegum rökum heldur á hjávísindum, misskilningi og dylgjum,“ segir dr. Björn Örvar, framkvæmdastjóri ORF Líftækni.

Verði teknir af lífi

Þúsundir manna mótmæla enn á Frelsistorginu í Kairó í Egyptalandi og hafa margir hverjir tjaldað á torginu. Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, þráast enn við að segja af sér en þúsundir manna halda enn áfram að krefjast afsagnar hans. Mótmælendur hafa komið sér haganlega fyrir á Frelsistorginu. Margir hafa tjaldað og fólk deilir með sér drykkjum og mat. Mubarak lét sjá sig á fundi með ráðherrum sínum í ríkissjónvarpinu í dag og lofaði að rannsókn yrði hafi á spillingu í stjórnkerfinu og á ásökunum um kosningasvindl.

Framkvæmdastjóra hjá Landsvirkjun boðið forstjórastarf OR

Bjarna Bjarnasyni, framkvæmdastjóra hjá Landsvirkjun, hefur verið boðið starf forstjóra Orkuveitunnar. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins en ákvörðun um þetta var tekin stjórnarfundi í dag. Af öllum líkindum verður greint formlega frá ráðningunni á morgun. Sextíu manns sóttu um starfið.

Brýnt að draga nemendur í iðngreinar

Vinna þarf frekar að því að draga nemendur inn í námsgreinar sem ekki hafa verið vel sóttar, svo sem iðngreinar. Þetta segir menntamálaráðherra en á sama tíma og um 80% ungs fólks á atvinnuleysisskrá er aðeins með grunnskólapróf vantar fólk inn í iðngreinar.

Sjálfstætt ríki Suður-Súdana verður stofnað

Tæplega 99% Suður-súdönsku þjóðarinnar kýs að aðskilja þjóðina frá Norður-Súdan. Lokatölur í í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fór fram síðustu vikuna í janúar voru birtar í dag. Fyrstu tölur bentu til þess að 99,57% hefðu greitt atkvæði með aðskilnaði.

Sextíu ökumenn stöðvaðir

Sextíu ökumenn voru stöðvaðir í sérstöku umferðareftirliti lögreglunnar um helgina. Þrír þeirra reyndust ölvaðir við stýrið en hinir sömu eiga allir ökuleyfissviptingu yfir höfði sér, að því er fram kemur á vef lögreglunnar.

Mál 12 ára ökumanns tilkynnt til barnaverndar

Hann var ekki hár í loftinu ökumaðurinn sem lögreglan stöðvaði á höfuðborgarsvæðinu um miðjan dag í gær. Sá ók fólksbíl þrátt fyrir að vera aðeins 12 ára en eðli málsins samkvæmt hefur viðkomandi ekki öðlast ökuréttindi.

Sjá næstu 50 fréttir