Upp­gjörið: KR - Njarð­vík 116-67 | KR-ingar kjöldrógu Njarð­vík og fara í undanúr­slit

Hjörvar Ólafsson skrifar
Þorvalur Orri Árnason átti góðan leik í kvöld. Skoraði 18 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.
Þorvalur Orri Árnason átti góðan leik í kvöld. Skoraði 18 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. vísir/Anton

KR rótburstaði Njarðvík þegar liðin áttust við í átta liða úrslitum VÍS-bikars karla í körfubolta á Meistaravöllum í Vesturbænum í kvöld. Þegar yfir lauk munaði 49 stigum á liðunum. 

KR-ingar hófu leikinn af ógnarkrafti en liðið lék af leiftrandi hraða og öryggi. Vlatko Granic var með fullkomna skotnýtingu í fyrsta leikhluta og skoraði 17 stig í þeim leikhluta en staðan var 37-18 heimamönnum í vil eftir fyrsta fjórðunginn.

Áfram hélt Granic að salla niður stigum í öðrum leikhluta og KR hélt forystu sinni í kringum 20 stigin. Króatinn geðþekki hélt áfram að hitta öllum skotunum sem hann reyndi og var kominn með 29 stig þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Staðan var 59-36 fyrir KR í hálfleik.

Njarðvíkingar náðu aldrei almennilega að velgja KR-ingum undir uggum með áhlaupi í seinni hálfleik og leikmenn KR héldu áfram að leika við hvurn sinn fingur í þriðja og fjórða leikhluta. 

Granic fékk verðskuldaða hvíld í seinni hálfleik og Þorvaldur Orri Árnason og Þórir Guðmudur Þorbjarnarson tóku við keflinu hjá KR-liðinu sem hélt áfram að auka á eymd gestanna úr Njarðvík. 

Lokatölur í leiknum urðu 116-67 fyrir KR sem er þar af leiðandi komið í undanúrslit keppninnar sem fram fara í Smáranum í Kópavogi í mars næstkomandi. 

Þangað eru Stjarnan, Valur og Keflavík einnig komin en Stjarnan vann Álftanes í gær, Valur hafði betur þegar liðið sótti Sindra heim í kvöld líkt og Keflavík lagði Hauka að velli. 

Atvik leiksins

Granic setti upp skotsýningu í fyrri hálfleik sem unun var að fygljast með. Karfan var stærri þegar króatíski leikmaðurinn lét skotin ríða af og stutt var í að hann myndi gjörsamlega kveikja í netinu. 

Stjörnur og skúrkar

Títtnefndur Granic átti sviðið í fyrri hálfleik en eftirlét Þorvaldi Orra og Þóri það þegar líða tók á leikinn. Granic hitti úr öllum sex af sex tveggja stiga skotum sem hann tók, báðum vítunum og fimm af sex þriggja stiga skotunum sem er bara býsna vel af sér vikið.  

Erfitt er að taka einn leikmann út fyrir sviga í flötu Njarðvíkurliði sem sá aldrei til sólar á dimmu janúarkvöldi í Vesturbænum. Veigar Páll Alexandersson reyndi hvað hann gat til þess að koma sínu liði inn í leikinn en hafði ekki árangur sem erfiði. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Kristinn Óskarsson, Bjarki Þór Davíðsson, Gunnlaugur Briem, dæmdu leikinn bara prýðilega og fá átta í einkunni fyrir vel unninn störf. 

Stemming og umgjörð

Það var þétt setið í Vesturbænum í kvöld eins og hefur raunar verið þar á bæ í allan vetur. Vesturbæingar voru að jafna sig eftir Þorrablót Vesturbæjar sem haldið var um helgina en það var enginn þynnkubragur á stemmingu stuðningsmanna liðsins. Vaskir sveinar úr yngri flokkar starfi félagsins sáu svo um að trekkja aðra KR-inga í stuð þegar það átti við og gerðu það með glæsibrag. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira