Fótbolti

Sölvi farinn frá Kína til Taílands

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sölvi Geir Ottesen spilar næst í taílandi.
Sölvi Geir Ottesen spilar næst í taílandi. vísir/getty
Miðvörðurinn Sölvi Geir Ottesen er genginn í raðir taílenska úrvalsdeildarliðsins Buriram United frá kínverska 1. deildar liðinu Wuhan Zall.

Frá þessu greinir taílenska félagið á Facebook-síðu sinni. Hann gerir ellefu mánaða samning við Buriram sem hafnaði í fjórða sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

Sölvi hefur undanfarin tvö ár leikið í Kína, fyrst með Jiangsu Sainty í úrvalsdeildinni og svo Wuhan Zall í 1. deildinni en þar áður var hann hjá Ural í Rússlandi.

Sölvi hefur einnig spilað með Djurgården og SönderjyskE á sínum ferli en hann fór frá Víkingi í atvinnumennskuna árið 2004.

Buriram er eitt af stærstu félögum Taílands og eitt það sigursælasta en það hefur fimm sinnum unnið úrvalsdeildina, fjórum sinnum hefur það orðið bikarmeistari og fjórum sinnum deildabikarmeistari. Liðið varð síðast taílenskur meistari árið 2015 en þá tók það bæði deild og bikar.

Taílenska deildin hefst á laugardaginn en Buriram á fyrsta leik á sunnudaginn á móti Chonburi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×