Innlent

Vændi Össur um lygi

Hart var tekist á um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á Alþingi í dag. Dagný Jónsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, vændi Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar, um lygi og var áminnt fyrir af forseta þingsins. Þetta var fjörugur dagur í þinginu og greinilegt að stefnir í heitan endasprett fyrir jól. Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar voru bitbeinið framan af degi og það var Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri-grænna, sem mælti fyrir hönd annars minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar. Hann sagði þá auknu misskiptingu sem er að verða hér á landi blasa hvarvetna við - annars vegar í lífskjörum þeirra sem raki til sín milljónum, og jafnvel milljörðum, og svo þeirra sem varla geti séð sér og sínum farborða.   Össur Skarphéðinsson í hinum minnihlutanum sagði Framsóknarflokkinn hafa staðið í vegi fyrir lækkun matarskatts. Hann lenti í rimmu við Dagnýju Jónsdóttur sem sagði Össur ljúga varðandi það að Framsóknarflokkurinn hefði stöðvað lækkun matarskatts. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, var ekki hrifinn af tungutaki þingmannsins og bað hann að gæta háttsemi í tungutaki sínu. Össur þakkaði forsetanum fyrir tilraun til að ala upp þingmenn Framsóknar og sagðist reiðubúinn að leggja sitt af mörkum til að það mætti vel takast. Össur sagði Pétur Blöndal, formann efnahags og viðskiptanefndar, týndan í skóginum. Pétur svaraði með því að spyrja hvort formaður Samfylkingarinnar væri á móti því að fella niður eignaskatt, lækka tekjuskatt svo fólk hefði hvata til að vinna meira og afla sér menntunar og hækka barnabætur. Um það snerist nefnilega frumvarpið og sagði Pétur að aðalrök Össurar hafi verið að fjármálaráðherra hafi vælt eins og grís. Össur svaraði því til að andmælandi hans mætti þakka fyrir að hann notaði ekki orð eins og „grístittur“ um ýmsa þingmenn og ráðherra. „Ég er bara kurteisari en svo að ég geri það,“ sagði Össur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×