Sport

Alda Leif til meistara Hollands

Alda Leif Jónsdóttir, fyrirliði ÍS í 1. deild kvenna í körfubolta og fimmta leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi, mun spila með hollenska liðinu Den Helder í hollensku úrvalsdeildinni næsta vetur. Den Helder vann meistaratitilinn annað árið í röð á síðasta keppnistímabili og hefur orðið meistari alls ellefu sinnum frá árinu 1985. Með liðinu leika nú meðal annars tvær af efnilegustu körfuknattleikskonum Hollands, 186 sm framherjinn Leonie Kooij og 188 sm miðherjinn Naomi Halman en þær eru báðar aðeins 19 ára. Den Helder-liðið er þekkt fyrir frábært uppbyggingarstarf og þar hafa margar af fremstu körfuboltakonum landsins stigið sín fyrstu spor en þjálfari liðsins er jafnframt þjálfari unglingalandsliða Hollands. Alda Leif sem er 26 ára gömul var valin í lið ársins í sjöunda sinn síðasta vetur, leiddi deildina í vítanýtingu (88,8%) og var með 15,6 stig og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þetta er mikill missir fyrir ÍS en liðið hefur nú misst báða leikstjórnendur sína frá því í fyrra, því á dögunum gekk Erna Rún Magnúsdóttir til liðs við Grindavík á nýjan leik. Ívar Ásgrímsson hefur tekið við þjálfun liðsins á ný eftir árs fjarveru. Alda Leif og kærasti hennar Sigurður Þorvaldsson verða því bæði á fullu í hollenska körfuboltanum næsta vetur því Sigurður mun spila með Woon!Aris Leeuwarden ásamt Hlyni Bæringssyni en sá bær er í klukkutíma fjarlægð frá Den Helder. Þetta er í annað sinn sem Alda Leif reynir fyrir sér erlendis en hún lék við góðan orðstír hjá danska liðinu Holbæk veturinn 2000-01.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×