Sport

Hafði mikil áhrif á ákvörðun mína

Dynamo St. Petersburg, lið Jóns Arnórs Stefánssonar í rússnesku úrvalsdeildinni í körfuknattleik, tryggði sér efsta sætið í Evrópudeildinni á dögunum og er taplaust það sem af er. Það hefur hins vegar valdið áhangendum liðsins áhyggjum að Dynamo hefur tapað tveimur leikjum í röð í rússnesku deildinni og er í 6. sæti deildarinnar um þessar mundir með 8 sigra og 6 tapleiki. Menn hafa velt þeirri spurningu upp hvort David Blatt sé starfi sínu vaxinn sem þjálfari liðsins en sá er hokinn af reynslu og hafði mikil áhrif á að Jón gekk til liðs við Dynamo í haust. "Við getum ekki kennt leikmönnum okkar um þetta slaka gengi heldur ber Blatt alla ábyrgð á frammistöðu liðsins. Varðandi þann möguleika að láta hann fara þá er það eitthvað sem hefur ekki ratað upp á borð til okkar að svo stöddu," sagði Vladimir Rodionov, framkvæmdastjóri Dynamo-liðsins. David Blatt, sem var áður hjá Maccabi Tel-Aviv, var ráðinn landsliðsþjálfari Ísraels um helgina og verður fyrsta verkefni hans að reyna að koma liðinu í úrslit í Evrópukeppni Landsliða. Blatt vann á sínum tíma tvo Evróputitla sem aðstoðarþjálfari Tel-Aviv. Hann hefur nú þegar stýrt Dynamo St. Petersburg til 11 sigra í Evrópukeppninni og segja körfuboltaspekingar að allar vangaveltur um að hann verði látinn taka poka sinn úr lausu lofti gripnar. Blatt vildi sjálfur meina að niðursveifla sem þessi væri viðbúin á þessum tíma árs. "Á árum mínum með Maccabi Tel-Aviv þá vissum við alltaf að janúar yrði slæmur fyrir okkur. Dynamo-liðinu til varnar má nefna að við ferðuðumst mjög mikið í nóvember og desember. Við náðum að vinna leiki þá en þetta kom niður á okkur núna," sagði Blatt. "Ég er þeirrar skoðunar að við erum á góðri leið með takmark okkar en til þess þarf mikla vinnu. Við viljum gera Dynamo að stórveldi," sagði Blatt ákveðinn. Jón Arnór, sem var hjá Dallas Mavericks í NBA-körfuboltanum á síðasta tímabili en söðlaði um og hélt til Rússlands í haust, hefur miklar mætur á Blatt og hefur lengi fylgst með kappanum. "Árangur hans með Maccabi Tel-Aviv er aðdáunarverður og ráðning hans til Dynamo St. Petersburg vóg þungt í ákvörðun minni í að ganga til liðs við Dynamo," sagði Jón Arnór í samtali við Fréttablaðið. Jón hefur leikið vel með Dynamo og þá sérstaklega í Evrópukeppninni. Þar hefur hann skilað liði sínu 14 stigum, 3,1 frákasti og 3,1 stoðsendingu að meðaltali í leik. Næsti leikur Dynamo St. Petersburg er á heimavelli í Evrópukeppninni gegn AEL Lemesos frá Kýpur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×