Sport

Hefur beðið lengi eftir tækifærinu

Þegar Skagamaðurinn Grétar Rafn Steinsson sleit krossbönd fyrir nærri tveimur árum ákvað hann að taka málin í eigin hendur. Hann vildi bestu mögulegu læknismeðferðina og stóð því sjálfur straum af kostnaði við tveggja mánaða endurhæfingarferð til Hollands. Hann hafði löngu ætlað sér að komast út í atvinnumennskuna og vinna sér sæti í íslenska landsliðinu sem nú hefur tekist. „Ég grét fyrst í koddann en ákvað svo að leggja allt undir," sagði hann í viðtali við Eirík Stefán Ásgeirsson. „Ég er búinn að bíða lengi og ég er feginn því að hafa fengið mitt tækifæri," segir Grétar Rafn Steinsson landsliðsmaður í knattspyrnu. Það er engum ofsögum sagt að þessi 23 ára Skagamaður sé með mikinn metnað og skýr markmið. Það er langt síðan að hann ákvað að hann myni gerast atvinnumaður í knattspyrnu og landsliðsmaður. Það leit ágætlega út með það fyrir fáeinum árum þegar hann var búinn að vinna sér fast sæti í byrjunarliði ÍA, þrátt fyrir ungan aldur, og farinn að vekja athygli á sér. Þá var hann valinn í hálfgert B-landslið Íslands sem árið 2001 hélt utan til Brasilíu til að leika við heimamenn. Þar skoraði hann eina mark Íslands í 6-1 tapi. Ekki slæmt að skora mark í sínum fyrsta landsleik, hvað þá gegn bestu knattspyrnuþjóð í heimi. „Það var mjög skemmtilegt en það er langt síðan og maður lifir ekki endalaust á því," segir Grétar. En þá kom áfallið. Í leik gegn Þrótti á Laugardalsvelli þann 24. júlí 2003 sleit Grétar Rafn krossbönd í hné. „Það voru teknar nokkrar kvöldstundir í að gráta í koddann. En ég ákvað að leggja allt undir, ég ætlaði að ná mér fljótt og verða betri en ég var fyrir. Það tókst." Þegar þetta átti sér stað hafði Grétar þegar vakið athygli erlendra liða, þeirra á meðal Young Boys í Sviss.  „Það átti eftir að stíga skrefið til fulls en þá gerist þetta, því miður. Ég ákveð því að taka málin í mínar hendur og gera þetta eins vel og mögulegt er. Ég dvel í Hollandi í tvo mánuði hjá mjög færum læknum og sjúkraþjálfurum til að allt sé fagmannlegt og gert almennilega. Þá er ég einnig hjá þeim sjúkraþjálfurum sem eru í landsliðinu og hjá ÍA. Maður þarf að vera nett geggjaður til að gera þetta almennilega og sem betur fer er nóg af því til staðar hjá mér." Grétar bjó á hóteli í Hollandi og naut að eigin sögn aðgangs að bestu æfingaaðstöðunni og læknunum sem völ er á. „Ég vildi bara það besta og það gekk eftir. Þetta var dýrt en ég fékk góðan stuðning. Ég gerði mér grein fyrir því að ef ég hefði ekki gert þetta myndi ég alltaf sjá eftir því," segir Grétar. Aðgerðin sjálf fór fram hér heima hjá íslenskum lækni. „Það var einróma álit úti að aðgerðin hafi verið mjög vel heppnuð og allt gengið að óskum." Hann kom sér síðan aftur af stað í boltanum síðastliðið vor og var í raun kominn aftur á byrjunarreit. „Ég þurfti að sanna mig upp á nýtt og vekja áhuga erlendra liða aftur. En þetta gekk ágætlega þó svo að ég hafi verið með verki í hnénu þegar mótið byrjaði. En líðanin er líka að miklum hluta til í kollinum, hvernig þú ákveður að lifa með þessu. Ég leit á það þannig að ég hafði ekki margra annarra kosta völ." Um haustið fór Grétar aftur út til Sviss til reynslu hjá Young Boys. „Það var í raun ótrúlegt hvað þeir voru í raun þolinmóðir. Á sínum tíma datt þetta alveg út af borðinu hjá þeim og höfðu þeir ekki samband fyrr en allt hafði gengið yfir. Þetta í raun reddaðist fyrir horn, þjálfarinn vildi fá mig og það gerði útslagið." Honum líkar vel vistin í Sviss þó svo að það hafi tekið sinn tíma að aðlagast nýjum aðstæðum, eins og hjá öllum. „Ég bý í Bern sem er í raun eins og alþjóðlegur flugvöllur, þar eru allra þjóða kvikindi. En ég hef stimplað mig vel inn í liðið, ég er talsvert öðruvísi leikmaður en flestir eru þarna og hef öðlast mikið sjálfstraust." Grétar hefur spilað allar stöður á vellinum nema í sókn og marki en þó mest sem hægri bakvörður. „Það fylgir því oft bölvun að geta spilað allar söður en svo lengi sem maður fær að spila er ég sáttur. Og þó svo að ég sé mikið í vörninni hef ég þó náð að skora fleiri mörk en á síðustu tímabilum mínum með ÍA." Young Boys varð í fjórða sæti í svissnesku deildinni sem lauk um síðustu helgi. „Það var ekki nógu góður árangur. Við eigum að vera að berjast um eitt af efstu tveimur sætunum en þau veita þátttökurétt í forkeppni Meistaradeildarinnar. En mér líkar vistin vel í Sviss, þetta er fínn fótbolti enda hefur það sýnt sig að svissneska landsliðið hefur verið að gera góða hluti og leika flestir landsliðsmannanna í sínu heimalandi. Það segir sitt um styrkleika deildarinnar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×