Fótbolti

Diarra er efstur á óskalistanum

Mahamadou Diarra krefst þess að fá að fara frá Lyon til Real Madrid
Mahamadou Diarra krefst þess að fá að fara frá Lyon til Real Madrid NordicPhotos/GettyImages

Ramon Calderon, forseti spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, segir það algjört forgangsatriði fyrir félagið að landa afríska miðjumanninum Mahamadou Diarra frá franska liðinu Lyon. Real hefur einnig mikinn áhuga á að fá Jose Reyes frá Arsenal, en þó komi það ekki til greina nema Arsenal samþykki að selja hann á hóflega upphæð.

"Við höfum mikinn áhuga á að fá Diarra og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að landa honum. Það eru bein fyrirmæli frá Fabio Capello þjálfaraog því hefur hann algjöran forgang nú," sagði Calderon.

"Reyes kemur ekki hingað nema Arsenal gangi að skilyrðum okkar, því við ætlum okkur ekki að eyða svo mikið sem einni evru í hann að óþarfa. Ég vorkenni Reyes sannarlega ef ekkert verður af kaupunum, en Arsenal á síðasta orðið í þessu sambandi," bætti forsetinn við.

Annars er það að frétta af Malí-manninum Diarra að hann hefur krafist þess að verða seldur frá frönsku meisturunum Lyon og hefur meira að segja hótað að fara í verkfall eða flýja til heimalands síns ef honum verði ekki hleypt til Real Madrid - sem hann kallar tækfæri sem knattspyrnumaður fái aðeins einu sinni á ævinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×