Viðskipti erlent

HM eykur væntingar Þjóðverja

Skrautlegir stuðningsmenn brasilíska landsliðsins á leik Brasilíu og Ghana í 16-liða úrslitum í gær.
Skrautlegir stuðningsmenn brasilíska landsliðsins á leik Brasilíu og Ghana í 16-liða úrslitum í gær. MYND/AP

Svo virðist sem heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu (HM), sem nú fer fram í Þýskalandi, hafi aukið væntingar þýskra neytenda umtalsvert. Þetta eru niðurstöður alþjóðlega markaðsrannsóknafyrirtækisins Gfk. Væntingavísitalan, sem gildir fyrir júlí, hækkaði um 7,8 punkta og hefur hækkun milli mánaða ekki verið meiri í fimm ár.

Þýskir neytendur eru engu að síður uggandi yfir stöðu efnahagsmála í Þýskalandi. Sérstaklega hafa þeir áhyggjur yfir eigin pyngju vegna hækkunar á virðisaukaskatti úr 16 prósentum í 19 prósent í janúar á næsta ári.

Í niðurstöðum Gfk kemur fram að þótt væntingar hafi aukist í Þýskalandi þá þýði það ekki endilega að neysla aukist vegna þessa.

Væntingavísitalan í Þýskalandi fór úr 105,7 punktum í 106,8 í júní og nam hækkunin einungis 1,1 punkti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×