Fótbolti

Sýning hjá Ronaldinho

NordicPhotos/GettyImages

Brasilíski snillingurinn Ronaldinho undirstrikaði það í kvöld að enginn knattspyrnumaður í heiminum stenst honum snúning þegar hann er í essinu sínu. Hann tryggði Barcelona 3-1 sigur á Zaragoza með því að skora tvö marka liðsins og leggja það þriðja upp.

Lið Zaragoza er feiknasterkt og komst yfir í leiknum, en Ronaldinho jafnaði með sjaldgæfu skallamarki áður en flautað var til hálfleiks. Einum leikmanni úr hvoru liði var vikið af velli eftir að hitnaði nokkuð í kolunum í Nou Camp. Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliði Barcelona í kvöld, en var farinn af leikvelli fyrir Javier Saviola þegar Ronaldinho tók til sinna ráða.

Brasilíumaðurinn kom Barcelona yfir með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu fjórum mínútum fyrir leikslok og þriðja mark skoraði svo Javier Saviola með því að renna boltanum yfir línuna á tómu markinu eftir að Ronaldinho hafði skotið boltanum í samskeytin úr annari - og enn glæsilegri aukaspyrnu.

Það er því ekki annað hægt að segja en að Ronaldinho hafi farið langt með að hrista af sér þá gagnrýni sem hann hefur fengið að hlusta á síðustu misseri, en hann var hreint út sagt stórkostlegur í leiknum í kvöld sem sýndur var beint á Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×