Erlent

Krefjast frjálsara samfélags

Fólk gekk með skilti og hrópaði slagorð á borð við: „Við erum öll Hrant Dink“ og „Við erum öll Armenar“ á tyrknesku og armensku.
Fólk gekk með skilti og hrópaði slagorð á borð við: „Við erum öll Hrant Dink“ og „Við erum öll Armenar“ á tyrknesku og armensku. MYND/AP

Tugir þúsunda manna gengu um götur Istanbúl í gær og kölluðu eftir frjálsara tyrknesku samfélagi þar sem fólk væri ekki myrt vegna skoðana sinna.

Ritstjórinn Hrant Dink, sem var af armenskum uppruna, var skotinn til bana um hábjartan dag fyrir utan vinnustaðinn sinn af herskáum þjóðernissinna í síðustu viku. Hann var jarðsettur í gær í einni fjölmennustu jarðarför sem farið hefur fram í Istanbúl. Þrátt fyrir óskir aðstandenda Dink um að jarðarförin myndi ekki snúast upp í mótmæli hrópuðu syrgjendur slagorð á borð við „öxl í öxl gegn fasisma“ og „morðingi 301“ sem vísar til tyrkneskrar lagagreinar um að sækja megi fólk til saka fyrir að móðga Tyrkland. Dink var ákærður fyrir að brjóta lagagrein 301 ásamt fleirum á borð við rithöfundinn Orhan Pamuk sem hlaut Nóbelsverðlaun í fyrra.

Sautján ára drengur hefur játað að hafa skotið Dink og herskár þjóðernissinni sem var dæmdur fyrir sprenguárás á McDonald‘s-veitingastað árið 1994 hefur játað að hafa skipulagt morðið.

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa lýst yfir áhyggjum af málinu. Tyrkland sækist eftir því að fá inngöngu í ESB en lítið hefur verið um fjöldamótmæli í Tyrklandi vegna skorts á málfrelsi þangað til í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×