Enski boltinn

Ég lofaði mömmu að kaupa ekki fótboltalið

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs og 365, segir við Vísi að hann komi ekki nálægt mögulegum kaupum á Newcastle.
Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs og 365, segir við Vísi að hann komi ekki nálægt mögulegum kaupum á Newcastle.

Svo virðist vera að að það sé aðeins athafnamaðurinn Pálmi Haraldsson sem sé að íhuga kaup á enska úrvalsdeildarliðinu Newcastle. Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var orðaður við kaupin í fjölmiðlum á sunnudaginn, sagði í samtali við Vísi í gærkvöld að hann kæmi þar hvergi nálægt. "Ég lofaði mömmu að kaupa ekki fótboltalið," sagði Jón Ásgeir.

Vísir greindi fyrst frá því á sunnudaginn að Pálmi Haraldsson og Jón Ásgeir íhuguðu kaup á Newcastle. Þá vildi Pálmi hvorki játa því né neita en bætti við að Newcastle væri flottur klúbbur, með flottan stjóra og hann hefði haldið lengi með liðinu. Seinna um kvöldið birti Stöð 2 síðan frétt um að knattspyrnugoðsögnin Alan Shearer væri með í hópnum sem íhugaði mögulega yfirtöku á meirihluta þeim sem breski auðkýfingurinn Mike Ashley á. Ekki hefur náðst í Pálma síðan á sunnudag.

Breska blaðið The Times birtir grein í dag þar sem ítarlega er fjallað um mögulega yfirtöku Pálma á Newcastle. Þar kemur fram að Pálmi sé reiðubúinn til að að greiða 135 milljónir punda, rétt rúma 18 milljarða íslenskra króna, fyrir hlut Ashleys. Aðrar heimildir blaðsins segja þó að viðræður hafi farið fram og þær hafi runnið út í sandinn. Í blaðinu er jafnframt vitnað í orð Pálma á Vísi á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×