Fótbolti

Saviola vill helst fara til Ítalíu

Saviola vill helst vera áfram í herbúðum Barcelona.
Saviola vill helst vera áfram í herbúðum Barcelona. MYND/AFP

Javier Saviola, félaga Eiðs Smára Guðjohsen hjá Barcelona, langar mest að fara til Ítalíu fari svo að spænska félagið bjóði honum ekki nýjan samning eftir núverandi tímabil. Saviola kveðst aldrei munu svíkja Barcelona með því að ganga til liðs við Real Madrid en hann útilokar ekki að vera áfram hjá Barca.

"Ekkert er ákveðið ennþá. Eitt er þó víst að ég mun aldrei svíkja Barcelona með því að fara til Real Madrid. Það er eina liðið sem ég get strax útilokað," sagði Saviola við spænska fjölmiðla í dag. "Ef ég skipti um lið verður það líklega til að fá nýja reynslu í öðru landi," bætti hann við.

Saviola hefur farið mikinn með Barcelona síðustu vikur og er jafnvel talið að forráðamenn félagsins bjóði honum nýjan samning fyrir vikið. Samningur Argentínumannsins við Barcelona rennur út í sumar og er honum í raun frjálst að semja við önnur lið. Fari svo að Saviola fari frá félaginu þykir líklegt að hann fari til Juventus, en ítalska liðið hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á sóknarmanninum.

"Barcelona er ennþá minn fyrsti kostur en ég hef aðra möguleika, sérstaklega á Ítalíu. Ég verð að sjá hvort og þá hvað Barcelona býður mér og taka ákvörðun í framhaldi af því," segir Saviola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×