Innlent

Garðyrkjubóndi fagnar hugmyndum viðskiptaráðherra

Eigandi Lambhaga, einnar stærstu matjurtaframleiðslu á höfuðborgarsvæðinu, segist fagna hugmyndum viðskiptaráðherra um lækkun raforkuverðs til garðyrkjubænda til jafns við orkuverð til stóriðju. Hann segir raforkuverðið stærsta kostnaðarliðinn í garðyrkjurækt og áhyggjuefni hversu lítil nýliðun sé í greininni vegna þessa.

Garðyrkjubændur hafa lengi kvartað undan of háu raforkuverði í gróðurhúsum. Þeir hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að þurfa greiða hærra raforkuverð fyrir starfsemi sína en til að mynda álver hafa þurft að greiða. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði í hádegisviðtalinu á stöð 2 í gær að brýnt væri að leita leiða til að efla og bæta hag garðyrkjubænda með því að lækka raforkuverð.

Ingvar Hafbergsson einn eigenda Lambhaga sem framleiðir matjurtir á höfuðborgarsvæðinu segist fagna hugmyndum viðskiptaráðherra. Í hverjum mánuði framleiði Lambhagi um 60 þúsund plöntur og mánaðarlegur raforkukostnaður sé á bilinu sjö til áttahundruð þúsund. Raforkan sé rúmlega helmingur af heildarkostnaði. Hann segir þá staðreynd vera áhyggjuefni sem bregðast þurfi við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×