Innlent

Auglýst eftir nýjum forstjóra Landspítala

Heilbrigðisráðuneytið hefur formlega auglýst embætti forstjóra Landspítalans laust til umsóknar.

Á vef ráðuneytisins er þess krafist í auglýsingu að forstjórinn skuli hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi og jafnframt þurfi hann að búa yfir reynslu af rekstri og stjórnun. Þá er gerð krafa um mikla samskipta- og leiðtogahæfileika en þess má geta að Landspítalinnn er fjölmennasti vinnustaður landsins með á fimmta þúsund starfsmenn.

Tilkynnt var í mars að Magnús Pétursson, þáverandi forstjóri, myndi láta af störfum og frá fyrsta apríl hafa þau Björn Zoëga og Anna Stefánsdóttir gengt starfinu.

Stjórnarandstaðan á Alþingi gagnrýndi brotthvarf Magnúsar á sínum tíma og sakaði heilbrigðisráðherra um að hrekja lykilstjórnendur Landspítalans úr starfi til að koma einkavæðingaráformum sínum í framkvæmd.

Umsóknarfrestur um starfið er til 15. júlí og ráðið verður í það frá 1. september til fimm ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×