Fótbolti

Rivaldo segist á leið til Asíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rivaldo er hér hylltur af stuðningsmönnum AEK.
Rivaldo er hér hylltur af stuðningsmönnum AEK. Nordic Photos / AFP
Brasilíumaðurinn Rivaldo segir að hann hafi samið við asískt lið og að hann sé á leið frá AEK í Grikklandi.

Rivaldo hefur verið eitt ár í herbúðum gríska liðsins en hann sagði ekki til hvaða liðs hann væri að fara. Samkvæmt grískum fjölmiðlum er hann á leið til Bunyodkor í Úsbekistan en félagið komst í heimsfréttirnar fyrir skemmstu er það sagðist hafa samið við Samuel Eto'o, leikmann Barcelona.

„Það var ekki auðvelt að taka þessa ákvörðun en ég fékk tilboð sem er mjög gott fyrir minn knattspyrnuferil," sagði Rivaldo sem er 36 ára gamall.

„Ég naut mín vel hjá AEK. Ég vil þakka forsetanum og stuðningsmönnunum en tilboðið sem ég fékk var of gott svo ég gæti hafnað því."

Forráðamenn AEK segja hins vegar að Rivaldo sé ekki á förum frá félaginu nema að því takist að finna annan leikmann í hans stað áður en félagskiptaglugginn lokar í lok mánaðarins.

„Rivaldo vill fara en sama hvað hann segir er hann samningsbundinn AEK til loka tímabilsins. Hann fer ekki nema við vinnum staðgengil fyrir hann," sagði talsmaður AEK. „En ef hann fer verður hann keyptur frá félaginu. Hann fer ekki héðan án greiðslu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×