Fótbolti

Burley: Þurfum að sanna að við erum betri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
George Burley, landsliðsþjálfari Skota.
George Burley, landsliðsþjálfari Skota. Nordic Photos / Getty Images

George Burley segir að ef Skotar séu með betra lið en Ísland þurfi þeir að sanna það á Laugardalsvellinum annað kvöld.

Burley er landsliðsþjálfari Skota en hann er enn að bíða eftir sínum fyrsta sigri eftir að hann tók við starfinu síðastliðinn vetur. Alls hefur hann stýrt Skotum í fjórum leikjum, þar af einum í undankeppni HM 2010.

„Ísland náði góðum úrslitum á laugardaginn og er með gott lið sem hefur einbeitta og metnaðarfulla leikmenn í sínum röðum," sagði Burley á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í dag.

Burley er vel þekktur meðal stuðningsmanna Ipswich enda lék hann þar í tólf ár, frá 1973 til 1985 og lék með liðinu í 394 leikjum og skoraði í þeim sex mörk.

Hann hóf svo þjálfaraferil sinn hjá skoska liðinu Ayr United þar sem hann var einnig leikmaður. Hann kom aftur til Ipswich árið 1994 og þá sem knattspyrnustjóri liðsins. Þar var hann í átta ár og keypti meðal annarra Hermann Hreiðarsson til liðsins árið 2000.

„Ég þekki auðvitað fyrirliðan þeirra, Hermann Hreiðarsson, mjög vel. Hann er mjög góður leikmaður sem gefur sig ávallt allan í leikinn," sagði Burley en Hermann fór frá Ipswich til Charlton árið 2003.

„Svo eru þeir með Eið Guðjohnsen sem er leikmaður í heimsklassa að mínu mati. Hann lék með Barcelona gegn Hibernian ekki fyrir löngu og skoraði þar tvö góð mörk."

Hann var spurður um stemninguna í skoska landsliðshópnum og sagði hann að hún væri góð. „Ég er fullviss um að leikmenn munu leggja sig alla fram þegar út í leikinn verður komið annað kvöld."

Telur þú að skoska liðið sé betra en það íslenska?

„Við þurfum að sanna á vellinum að við erum betri. Við erum alla vega vel undirbúnir og verðum vonandi klárir í slaginn."

Skotland tapaði fyrir Makedóníu, 1-0, í fyrstu umferð undankeppninnar um síðustu helgi. „Það voru vissulega vonbrigði að ná ekki í stig í fyrsta leiknum. Við vorum þó betri aðilinn í seinni hálfleik og tökum það vonandi með okkur í þennan leik."

Eftir tapið var Burley harkalega gagnrýndur í skoskum fjölmiðlum og lýsti hann yfir vonbrigðum sínum með viðbrögð skosku pressunnar.

„Þeir mega auðvitað skrifa þar sem þeir vilja. En það er bara einum leik lokið og önnur lönd hafa tapað sínum fyrsta leik í undankeppnum stórmóta. Mér er til efs að þau hafi mátt þola sömu meðferð og skoskir fjölmiðlar hafa gefið síðustu daga."

Hann segir þó aðalmálið vera leikinn á morgun. „Það er alveg ljóst að við höfum ekki efni á að tapa þessum leik. En svona er HM, ef lið ætla sér að komast í úrslitakeppnina þurfa þau að sýna að þau geti staðið sig vel í mörgum leikjum í röð."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×