Fótbolti

Ítalir komnir áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chu Young Park og Andrea Coda eigast hér við í leiknum í dag.
Chu Young Park og Andrea Coda eigast hér við í leiknum í dag. Nordic Photos / AFP
Ítalía er komið áfram í fjórðungsúrslit í knattspyrnu karla á Ólympíuleikunum í Peking. Holland og Bandaríkin gerðu jafntefli og Belgía vann Kína, 2-0.

Moussa Dembele og Kevin Mirallas skoruðu mörk Belga í dag sem fengu þar með sín fyrstu þrjú stig á leikunum. Ef þeir vinna Nýja-Sjáland á morgun fylgja þeir Brasilíu í fjórðungsúrslitin.

Í B-riðli er spennan mikil en Bandaríkin og Holland gerðu í dag 2-2 jafntefli. Bandaríkin er með fjögur stig, rétt eins og Nígería, en Holland tvö. Japan rekur lestina án stiga.

Ryan Babel kom Hollendingum yfir á sextándu mínútu en Sacha Kljestan og Jozy Altidore komu Bandaríkjamönnum yfir í síðari hálfleik. Það var svo Gerald Sibon sem bjargaði stigi fyrir Hollendinga með marki í uppbótartíma.

Fílabeinsströndin tók í dag stórt skref í átt að því að komast í fjórðungsúrslitin með því að vinna Serbíu, 4-2, í A-riðli. Þeir mæta Áströlum á morgun og dugir væntanlega jafntefli til að fylgja Argentínu í fjórðungsúrslitin.

Í D-riðli vann Kamerún 1-0 sigur á Hondúras í nótt. Í morgun vann svo Ítalía 3-0 sigur á Suður-Kóreu og tryggðu sér þar með sæti í fjórðungsúrslitunum. Giuseppe Rossi, Tommaso Rocchi og Riccardo Montolivo skoruðu mörk Ítala.

Kamerún er nú með fjögur stig en mætir Ítalíu á miðvikudaginn. Suður-Kórea gæti stolið öðru sætinu af Kamerún með stórum sigri á Hondúras í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×