Fótbolti

Heiðar: Hugarfarið hefur breyst hjá mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar Helguson er hér annar frá vinstri að fagna marki með Bolton.
Heiðar Helguson er hér annar frá vinstri að fagna marki með Bolton. Nordic Photos / Getty Images

Heiðar Helguson var í dag valinn í íslenska landsliðið í fyrsta sinn síðan um haustið 2006, er hann hætti að gefa kost á sér.

Heiðar sagði í samtali við Vísi að hann hefði lengi hugsað um þessi mál en ekki verið í nægilega góðu líkamlegu ástandi til að geta gefið kost á sér fyrr en nú.

„Ég hitti Ólaf (Jóhannesson landsliðsþjálfara) þegar ég var staddur heima á Íslandi nú fyrr í sumar og þá ræddum við þessi mál," sagði Heiðar.

„Það sem hefur breyst hjá mér er fyrst og fremst hugarfarið. Það voru persónulegar ástæður fyrir því að ég ákvað að gefa ekki kost á mér á sínum tíma og þær aðstæður hafa nú breyst. Hverjar þessar persónulegu ástæður voru kemur svo engum við."

„En þetta er ekki skyndiákvörðun. Ég komst líka að þeirri niðurstöðu að ég ætti ekki það mörg ár eftir í boltanum og mig langaði að koma aftur."

Hann segist spenntur fyrir þeim verkefnum sem eru framundan hjá landsliðinu og segir eðlilegt að nýr landsliðsþjálfari fái sinn aðlögunartíma með liðinu.

„Gengið hefur kannski ekki alltaf verið eins og menn hafi ætlað sér þó svo að liðið hafi þó unnið þrjá leiki í röð á tímabili. En það hafa verið miklar breytingar á landsliðinu og það tekur tíma fyrir nýjan þjálfara og mikið af nýjum leikmönnum að spila eins og best verður á kosið."

Heiðar spilaði sinn fyrsta leik í langan tíma með Bolton gegn Northampton í enska deildarbikarnum á þriðjudaginn. Bolton tapaði leiknum, óvænt, en Heiðar spilaði allan leikinn.

„Ég var allt í lagi. Þetta var aðeins annar leikur minn í eitt ár og það var jákvætt og mikilvægast fyrir mig persónulega að ég entist allan leikinn án þess að finna fyrir þeim meiðslum sem hafa verið að hrjá mig."

Fjölmiðlar á Englandi hafa verið duglegir að orða Heiðar við önnur félög, þá helst í ensku B-deildinni.

„Ég hef ekkert heyrt af þessum málum og veit svo sem ekki hvort að þjálfarinn vill halda mér eða ekki. Ég mæti bara í vinnuna. En eins og staðan er núna þá er ég ekki á leiðinni neitt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×