Fótbolti

Jafntefli í slökum leik í Laugardalnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson skoraði sigurmark Íslands í dag.
Grétar Rafn Steinsson skoraði sigurmark Íslands í dag. Mynd/Daníel

Ísland og Aserbaídsjan gerðu 1-1 jafntefli í heldur döprum leik á Laugardalsvellinum í kvöld.

Fabio Luis Ramim kom Aserum yfir með marki beint úr aukaspyrnu á 48. mínútu en Grétar Rafn Steinsson jafnaði metin tíu mínútum síðar með skalla eftir aukaspyrnu nýliðans Jóhanns Bergs Guðmundssonar.

Eftir markið kom ágætur leikkafli hjá íslenska liðinu en annars var leikurinn nokkuð slakur. Íslendingar stjórnuðu leiknum lengst af í fyrri hálfleik án þess þó að skapa sér mörg færi. Helst var að Eiður Smári Guðjohnsen og Birkir Már Sævarsson komu sér í góð skotfæri en Eiður lét verja frá sér og Birkir skaut framhjá.

Síðustu 25 mínúturnar í leiknum voru verulega slakar og komst hvorugt liðið nálægt því að skora sigurmarkið.

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari var með átta leikmenn á varamannabekknum en gerði aðeins tvær skiptingar í leiknum sem verður að teljast óvenjulegt þar sem um vináttulandsleik var að ræða.

Fáir íslenskir leikmenn áttu góðan dag en helst var að Grétar Rafn, Hermann og Jóhann Berg skiluðu sínu. Það jákvæðasta var að hinn ungi Jóhann Berg komst vel frá sínu í sínum fyrsta landsleik.

Þetta var síðasti leikur íslenska landsliðsins fyrir undankeppni HM 2010 sem hefst í næsta mánuði.

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins. Lesa má nánar um gang leiksins þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×